Þyrla Landhelgisgæslunnar kom rétt í þessu tveimur gönguskíðamönnum til bjargar austan Langjökuls. Um hundrað björgunarsveitarmönnum, sem voru á leið á staðinn úr norðri og suðri, hefur verið snúið til baka.
Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að mennirnir hafi verið blautir og hraktir. Þeir hafi gist í tjaldi uppi á hálendi í nótt og það hafi skemmst í veðrinu.
Davíð segir að þyrlan hafi verið á sveimi á svæðinu í dag en lokatilraun til að hífa þá um borð hafi loks borið árangur. „Veðrið er að skána núna rétt fyrir fjögur. Þetta eru glænýjar fréttir,“ segir hann um björgun þyrlunnar.
Mennirnir, sem eru þýskir, voru staðsettir á milli Laugafells og Nýjadals. Davíð segist ekki vita hversu lengi þeir hafi verið uppi á hálendi en hver óveðurslægðin hefur rekið aðra að undanförnu.


Athugasemdir