Einn er látinn eftir að sendibíll valt í Hestfirði í botni Ísafjarðardjúps á fjórða tímanum í dag. Tveir farþegar voru í bílnum. Hinn farþegi bílsins var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús í Reykjavík.

Neyðarlínu barst símtal skömmu fyrir klukkan fjögur vegna slyssins og voru lögreglumenn, sjúkraflutningamenn, slökkviliðsmenn og björgunarsveitarmenn sendir á vettvang. 

Að sögn lögreglunnar á Vestfjörðum eru báðir aðilar íslenskir og hefur fjölskyldum þeirra verið gert viðvart.

Rannsókn á tildrögum slyssins er í höndum lögreglunnar á Vestfjörðum og rannsóknarnefndar samgönguslysa. Ekki er tímabært að gefa frekari upplýsingar um atvikið að sögn lögreglu.

Fréttin hefur verið uppfærð.