Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir að það yrði risastórt verkefni að skima alla þá sem ætla á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um Verslunarmannahelgina, sagði hann í svari við spurningu Fréttablaðsins á fundi Almannavarna í morgun að óvíst sé hvort geta sé til þess. Það hafi þó verið rætt.

„Það er svakalegt fyrirtæki að fara að skima tíu til tuttugu þúsund manns á nokkrum dögum, eða á einum degi, fyrir bara þá hátíð. Það eru aðrar hátíðir í gangi líka í landinu þannig að ég sé ekki við höfum alveg getu til að gera það,“ sagði Þórólfur.

„Menn geta nýtt sér hraðgreiningapróf en það þarf samt gríðarlegan mannskap til að sinna því.“

Slíkt verkefni væri ekki á borði sóttvarnarlæknis, skoða þurfi hvort þetta sé yfirleitt framkvæmanlegt. „Þetta þarfnast gríðarlegrar skipulagningar, þetta yrði gríðarlega dýrt og ég er ekki viss um að það takist að útfæra þetta með svo stuttum fyrirvara,“ sagði Þórólfur.

Þyrfti að skima tugi þúsunda

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum, bætti við að slíkt fyrirkomulag þyrfti einnig að eiga við um Ungmennalandsmót á Selfossi, Akureyri og fleiri stöðum um Verslunarmannahelgina. „Það þyrfti að skima tugi þúsunda. Það væri gríðarlegt verkefni,“ sagði Víðir. Víðir sagði að búið væri funda með lögreglustjórum um allt land, þeir hafi svo fundað með skipuleggjendum útihátíða.

Víðir sagði að hann hefði ekki séð neinar útfærslur á borð við að hólfa Herjólfsdal niður í sóttvarnarhólf. „Það var til umræðu í fyrra fyrir Þjóðhátíð, þá sáum við ekki alveg hvernig það gæti gengið upp. Það hefur ekkert breyst í því.“