Til­kynnt var um út­hlutanir á lista­manna­launum í gær og hlutu 236 lista­menn tíma­bundin starfs­laun til að sinna verk­efnum sínum árið 2022. Sam­kvæmt tölum frá Rann­ís var fjöldi um­sækj­enda þetta árið 1.117 og því ljóst að marg­falt fleiri sóttu um en fengu út­hlutun.

Í hvert skipti sem lista­manna­launum er út­hlutað skapast mikil um­ræða hjá al­menningi og lista­mönnum í landinu og er árið í ár engin undan­tekning. Það sem hefur þó vakið sér­staka at­hygli innan rit­höfunda­stéttarinnar er að bæði yngsta kyn­slóð og elsta kyn­slóð rit­höfunda virðast eiga mun erfiðara upp­dráttar hjá út­hlutunar­nefndinni.

Í tölu­legum upp­lýsingum frá Rann­ís kemur fram að yngsti um­sækjandinn í launa­sjóð rit­höfunda þetta árið var 22 ára og sá elsti 77 ára. Yngsti um­sækjandinn sem fékk út­hlutun úr launasjóði rithöfunda var hins vegar 27 ára og sá elsti 69 ára.
Tafla/Rannís

Höfundar yfir sjö­tugt fá ekki starfs­laun

Steinunn Sigurðar­dóttir hefur verið starfandi rit­höfundur í rúma hálfa öld og löngu orðin lands­þekkt fyrir skáld­skap sinn. Hún er ein þeirra sem fékk engin lista­manna­laun í ár og árið 2021 fékk hún einungis þrjá mánuði og var þá lækkuð niður úr 12 mánuðum árið á undan. Að sögn Steinunnar hefur myndast skýr stefna hjá út­hlutunar­nefndinni um að veita rit­höfundum yfir 70 ára aldri ekki rit­laun, en sjálf varð hún 71 árs í haust.

„Það sem er í gangi hérna er mjög ein­falt mál, það er ó­skráð regla um það að veita höfundum sem eru orðnir 69 eða 70 ára ekki starfs­laun undir nokkrum kring­um­stæðum. Það er ekki spurt um neina núansa, það er ekki spurt um það eins og til dæmis með mig hvort ég sé að halda á­fram að vinna og gera eitt­hvað nýtt,“ segir Steinunn en hún sendi síðast frá sér bók í haust, leik­söguna Systu megin, sem hlaut einkar góðar við­tökur.

Steinunn Sigurðardóttir sendi frá sér sína fyrstu bók árið 1969, þá aðeins 19 ára að aldri.
Fréttablaðið/Ernir

„Ég full­yrði það bara við þig og við hvern sem hafa vill að hér er ekki farið eftir um­sóknunum, það er farið eftir aldri. Um­sóknin mín var efnis­mikil og vandað til hennar. Ef við­miðið væri að fólk væri komið á svo öflug eftir­laun að það ætti ekki að vera púkka meira upp á það frá ríkinu, þá er það til dæmis alls ekki mitt til­felli,“ segir Steinunn og bætir því við að hún sé með hverfandi lítil eftir­laun vegna þess að hún hafi flakkað mikið á milli landa á sínum ferli en hún var ein­mitt stað­sett í Frakk­landi þegar blaða­maður hringdi í hana.

„Mér liggur við að nefna orðið ellis­mánun, að þetta fólk sem hefur verið að vinna að rit­störfum alla ævi, og reyndar öðrum list­greinum líka, er bara skilið eftir úti í skurði. Það er ekkert sem grípur þetta fólk, það eru engir eftir­launa­sjóðir og ef fólk er nógu vit­laust til að velja sér þessi störf þá getur það bara lent í því að lepja dauðann úr skel sem gamalt fólk, sem reyndar fleiri Ís­lendingar gera og skömm er að,“ segir Steinunn.

...það er ó­skráð regla um það að veita höfundum sem eru orðnir 69 eða 70 ára ekki starfs­laun undir nokkrum kring­um­stæðum. -Steinunn Sigurðardóttir

Júlía Margrét Einarsdóttir hefur sent frá sér fjórar bækur, nú síðast skáldsöguna Guð leitar að Salóme.
Mynd/Ágúst Óliver Erlingsson

Fá þau skila­boð að vinnan þeirra sé einskis virði

Þótt staða eldri rit­höfunda sé ekki öfunds­verð þá eiga þeir sem yngri eru eiga jafn­vel enn meira á brattann að sækja. Júlía Margrét Einars­dóttir er ungur höfundur sem vakti mikla at­hygli fyrir aðra skáld­sögu sína, Guð leitar að Salóme, sem kom út síðasta haust. Júlía er dóttir rit­höfundarins Einars Kára­sonar og segist því þekkja um­ræðuna um lista­manna­laun vel frá sínu upp­eldi.

„Ég er náttúru­lega bara alin upp á heimili með mann­eskju sem hefur fengið þessi lista­manna­laun en það hefur alltaf verið sama ó­vissan í janúar, hvort og hvernig pabbi minn fær greitt fyrir vinnuna sem hann hefur verið að vinna ára­tugum saman. Ég hef alltaf vitað að þetta væri stressandi og skrýtið og mér finnst undar­legt að sækja um að fá borgað.“

Júlía er 34 ára gömul og hefur einu sinni fengið þriggja mánaða út­hlutun úr launa­sjóði rit­höfunda en hún skrifaði Guð leitar að Salóme með­fram fullu starfi á RÚV án þess að fá greitt fyrir rit­störfin.

„Svo núna gef ég út þessa skáld­sögu og einn af drif­kröftunum í því að vera að vinna hana án þess að fá krónu greidda fyrir það í rauninni, að vera að vinna myrkranna á milli með­fram fullri vinnu, var að ég taldi sjálfri mér trú um það að ef ég gæfi út fjórðu bókina mína, aðra skáld­söguna, að þá hefði ég sýnt fram á það að þó að ég hefði fengið höfnun hingað til að ég væri að vinna mikla erfiðis­vinnu.“

Júlía í­trekar þó að hún sé ekki bitur yfir því að hafa sjálf ekki fengið rit­laun heldur sé hún fyrst og fremst svekkt fyrir hönd kollega sinna sem fengu ekki brautar­gengi.

„Per­sónu­lega þá finnst mér aðal­lega sjokkerandi bara hvað það eru mörg nöfn og mikið af fram­bæri­legu fólki sem mér finnst vanta á þennan lista í ár og mér finnst bara al­gjör sví­virða hvað það er mikið af öflugum lista­mönnum og hæfi­leika­fólki sem er bara sagt að vinnan þeirra sé einskis virði og þau eigi ekki að fá borgað fyrir hana.“

...það er líka verið að ýta niður ungum konum og ungu fólki sem er með lítil börn á heimilinu og gefa þeim engan séns á að skapa. -Júlía Margrét Einarsdóttir

Júlía segist bera skilning á því að harkið sé ó­um­flýjan­legur fylgi­fiskur þess þegar fólk er að koma sér af stað í sínum bransa. Hún hafi sjálf til að mynda alltaf verið í vinnu sam­hliða rit­störfum og sinnt listinni í frí­tíma. Það sé þó ekki öllum gefið að lifa slíkum ­lífstíl.

„Ég er barn­laus en ef ég ætti börn þá hefði ég aldrei getað gefið út þessar tvær skáld­sögur. Ég myndi ekki geta hagað litla frí­tímanum sem ég fæ í ein­hverri 100 prósent vinnu í að skrifa, það væri bara ekki séns. Þannig það er líka verið að ýta niður ungum konum og ungu fólki sem er með lítil börn á heimilinu og gefa þeim engan séns á að skapa,“ segir Júlía.

Sverrir Norland vinnur jöfnum höndum sem rithöfundur, gagnrýnandi, útgefandi og fyrirlesari.
Fréttablaðið/Ernir

Yngri höfundar fá miklu minna

Rit­höfundurinn og gagn­rýnandinn Sverrir Nor­land skrifaði hug­leiðingu um lista­manna­laun á Face­book þar sem hann gagn­rýnir út­hlutun launanna. Hann segir yngri höfundana heilt yfir fá miklu minna og að komið sé fram við þá eins og ný­græðinga þrátt fyrir að jafn­vel sé um sé að ræða full­orðið fólk með margar bækur á bakinu og fjöl­skyldur sem þarf að sjá fyrir.

„Sú var tíð að höfundar um þrí­tugt fengu allt að þriggja ára starfs­laun; ég gæti nefnt þá góðu höfunda á nafn og tel að þessi fínu starfs­skil­yrði, sem þau höfðu í upp­hafi ferilsins, auk hvatningar ís­lenskra les­enda og á­huga fjöl­miðla á bók­menntum, hafi átt stóran hlut í því að þau blómstruðu og urðu að þeim úr­vals­höfundum sem þau eru í dag,“ skrifar Sverrir.

Hann tekur fram að hann hafi sjálfur fengið rit­laun í sjö ár en aldrei meira en 6 mánuði og kvartar yfir skorti á sam­fellu og fram­tíðar­sýn fyrir höfunda sem eru að byggja upp sinn feril.

„Það þarf í öllu falli nauð­syn­lega að lækka meðal­aldurinn, einkum í efstu flokkunum. Ekki með því að bola hinum rót­grónu burt – þeir eiga sannar­lega skilið að vera þarna – heldur með því að auka að­eins peningana í pottinum. Ekki þarf mikið til. Svo að þessi starfs­stétt þrífist á­fram og við getum haldið á­fram að skrifa á ís­lensku. Ekki bara á þessu ári og því næsta – heldur eftir tíu ár, tuttugu ár. Annars flýjum við öll í tækni­bransann,“ skrifar Sverrir.

Ragnheiður Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Rithöfundasambandsins, segir löngu tímabært að gera kerfis­breytingu á starfslaununum.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Löngu tíma­bært að endur­skoða launin

Ragn­heiður Tryggva­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Rit­höfunda­sam­bandsins, tekur í svipaðan streng. Rit­höfunda­sam­bandið hefur það hlut­verk að til­nefna upp­stillingar­nefndina fyrir út­hlutun starfs­launanna en endan­legt val á út­hlutunar­nefndinni fer þó fram af Rann­ís. Að sögn Ragn­heiðar sendi Rit­höfunda­sam­bandið fyrir­spurn á Rann­ís í fyrra þegar í ljós kom að fjöl­margir höfundar sem komnir voru yfir sjö­tugt höfðu verið lækkaðir niður í þrjá mánuði í út­hlutun ársins 2021. Sumir þessara rit­höfunda, á borð við Steinunni Sigurðardóttur, duttu svo alveg út af listanum í ár.

„Við sáum mjög greini­lega þessa þróun í fyrra, þá var verið að taka þessa höfunda niður í þrjá mánuði, flesta, sem eru svo teknir út núna. Þannig það fer ekkert á milli mála að þetta er á­kvörðun ein­hvers staðar. Í fyrra mót­mælti Rann­ís og sagði að þetta hefði ekki verið á­kvörðun, það er að segja þetta hefði bara verið nefndin sem út­hlutaði svona. Í ár er þetta svo gegnum­gangandi að þetta er ekki til­viljun. Það er ekki fræði­legur mögu­leiki að þessir höfundar hafi allt í einu tekið upp á því að skila svona arfa­vondum um­sóknum,“ segir Ragn­heiður.

Ragn­heiður furðar sig á þessari stefnu og veltir því fyrir sér af hverju það sé þá ekki tekið sér­stak­lega fram í leið­beiningunum að höfundar yfir sjö­tugu séu ekki gjald­gengir í sjóðinn, ef sú er raunin. Þá segir hún það ljóst að gera þurfi kerfis­breytingu á sjálfum launa­sjóðnum. Fjölga þurfi mánuðum, en heildar­fjöldi mánaða hefur verið fastur í 1600 frá árinu 2009, huga þurfi sér­stak­lega að ný­liðun innan stéttarinnar sem og þeim sem komnir eru yfir sjö­tugt. Al­mennt þurfi að skapa meiri sam­fellu með lengri og öruggari starfs­launa­tíma fyrir fólk innan stéttarinnar.

„Kerfið var svo gott á sínum tíma og var alveg gríðar­leg fram­för. Í raun má segja að at­vinnu­mennska í rit­list hafi orðið til þegar að þessi starfs­laun urðu að veru­leika. En ekkert kerfi er svo gott að það þurfi ekki að endur­skoða það með reglu­lega milli­bili og það er löngu, löngu orðið tíma­bært að endur­skoða þessi lista­manna­laun.“

Höfundur er rit­höfundur og með­limur í Rit­höfunda­sam­bandi Ís­lands.