Karl Liljendal Hólmgeirsson er yngsti þingmaður frá upphafi. Karl tók sæti á alþingi í dag fyrir Miðflokkinn. Karl er tuttuga ára gamall. Karl er barnabarn Sigrúnar Magnúsardóttur fyrrum þingkonu og umhverfis- og auðlindarráðherra fyrir Framsóknarflokkinn. Sigrún var einmitt ekki fyrir svo löngu elsti þingmaður þingsins. Sigrún hún hætti á þingi árið 2016 en var ráðherra til ársins 2017.

Karl segir í samtali við Fréttablaðið í dag að dagurinn hafi verið góður. „Þetta er búið að vera æðislegt. Dagurinn byrjaði á því að Hólmfríður, ritari þingflokksins, sýndi mér um þegar ég mætti í morgun. Síðan fór ég inn á skrifstofu að vinna. En hápunktur dagsins var klárlega athöfnin þegar ég skrifaði undir drengskaparheit,“ segir Karl í samtali við Fréttablaðið í dag.

Hann segir athöfnina hafa verið flotta og að Sigrún, amma hans, hafi einmitt verið viðstödd athöfnina. „Hún vildi vera viðstödd þegar ég skrifaði undir drengskaparheitið,“ segir Karl.

Aðspurður hvort hún hafi ekki gefið honum góð ráð í gegnum tíðina segir Karl að hún hafi ávallt reynst honum vel. „Hún er mikil fyrirmynd í pólitík þó við séum ekki lengur í sama flokki. Okkar samband er mjög gott.“

Þegar blaðamaður náði tali af honum var hann að undirbúa sig fyrir kvöldið en á dagskrá þingsins eru eldhúsdagsumræður sem hefjast klukkan 19.30.