Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík og borgarfulltrúi, á stórafmæli í dag og verður þrítug. Það er þó ekki það eina merkilega við daginn í dag því Dóra tekur einnig sæti sem forseti borgarstjórnar, sú yngsta sem í því embætti hefur setið, auk þess sem hún fagnaði Kvenréttindadeginum með því að flytja ávarp við leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur baráttukonu og leggja krans við leiði hennar.

„Það er mikil dagskrá. Ég byrjaði daginn í Hólavallagarði að fagna Kvenréttindadeginum á minningarathöfn um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur. Þar lagði ég krans við leiði hennar og flutti ávarp um kvenfrelsi og réttindi kvenna. Síðar í dag er borgarstjórnarfundur og þar tek ég sæti sem forseti borgarstjórnar. Yngsti forseti sem hefur setið, það er mjög skemmtilegt,“ segir Dóra Björt í samtali við Fréttablaðið í dag. 

En Dóra Björt er ekki sú eina sem á afmæli í dag, því Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, fagnar einnig afmæli sínu í dag. Aðspurð hvort það yrði fagnað á borgarstjórnarfundi síðar í dag var Dóra ekki viss um að það væri búið að skipuleggja nokkuð sérstakt.

„Við fögnum auðvitað með því að vera á fundinum. Ég veit samt ekki til þess að það sé eitthvað mikið skipulagt á borgarstjórnarfundinum, en hver veit nema það verði kaka. Síðan förum við kannski eitthvað í kvöld saman meirihlutinn. En það verður skálað eftir fund, þannig það verður örugglega nóg fagnað í dag,“ segir Dóra Björt.

Fagnar almennilega síðar

Dóra segir að hún sé ekki með nein sérstök mál sem hún ætli að leggja fyrir fundinn í dag, því það sé hefð fyrir því að fyrstu fundur sé hátíðarfundur þar sem kosið er í nefndir og ráð. Minnihlutinn hefur þó lagt fyrir talsverðan fjölda mála á fundinn og bjóst Dóra allt eins við því að fundurinn gæti dregist fram eftir við umræður mála minnihlutans.

„Það er vaninn á fyrsta fundi að það sé kosið í ráð og nefndir. Það er ágætis hefði á fyrsta fundi. En minnihlutinn er búinn að leggja fyrir ýmis mál sem við förum í gegnum. Ég bæti ekkert við það að svo stöddu. Það er spurning hversu langur fundurinn verður en ég er að vonast til þess að geta mögulega fagnað að honum loknum,“ segir Dóra.

Hún tekur þó fram að hún ætli að fagna afmælinu almennilega síðar en sagðist vonast til þess að geta borðað með fjölskyldunni sinni og síðar í kvöld ætlaði meirihlutinn að fagna fyrsta borgarstjórnarfundinum.