Amma barnsins sem auglýst hefur eftir brjósta­mjólk í Facebook-hópum segir það þyngra en tárum taki að brjósta­mjólk að gjöf sé gerð tor­tryggi­leg með því að leiða að því líkum að hún sé einkum notuð af vaxta- og líkams­ræktar­fólki til vöðva­upp­byggingar. 

Hrefna Ingvarsdóttir fer yfir sögu barna­barns síns í sam­tali við Frétta­blaðið. Barnið fæddist á Land­spítalanum í nóvember og var skömmu síðar út­skrifað heil­brigt þaðan áður en það greindist síðar með svo­kallaðan Krabbe-sjúk­dóm. 

Sjá einnig: Auglýsa eftir mjólk handa huldubarni

Sjúk­dómurinn veldur oftast dauða fyrir tveggja ára aldur. Þó fá 10-15% ein­stak­linga hæg­virkara af­brigði sjúk­dómsins sem kemur fram eftir eins árs aldur. 

Ekki kunnugt um brjóstamjólkurbanka hér á landi

„Það er náttúr­lega bara gríðar­legt á­fall fyrir fjöl­skylduna að takast á við það og fyrir þau því þau eru korn­ung. Þetta er ekki bara til­finninga­legt tjón heldur fjár­hags­legt líka. Það eru allir að reyna að hjálpa þeim.“ 

Barnið hafi hvorki tekið inn brjósta­mjólk móðurinnar né þurr­mjólk. Það hafi fengið krampa­flog vegna sjúk­dómsins sem ræðst á mið- og út­tauga­kerfið. Hrefna hafi brugðið á það ráð að leita brjósta­mjólkur frá öðrum mæðrum. 

„Það að ein­hver kona úti í bæ hafi verið til­búin að deila þessari mjólk var bara því­lík hjálp fyrir okkur,“ segir hún og bætir við að munurinn hafi verið því­líkur. 

„Það er bara gríðar­legur munur á barninu. Hin mjólkin fer ekki ofan í hann en þessi gerir það og hann dafnar, hann þyngist. Mjólkin hefur gert honum of­boðs­lega gott.“ 

Hér á landi er rekinn brjósta­mjólkur­banki á vöku­deild Land­spítalans. Sú mjólk kemur öll frá Dan­mörku en Hrefna segist ekki hafa haft vit­neskju um til­vist hans. 

„Í mínum huga er hún dýrlingur“

„Hann var aldrei á vöku­deild.“ Þá hafi Land­spítalinn aldrei minnst á slíkt við fjöl­skylduna að sögn Hrefnu eða fólk í heima­hjúkrun talað um það. 

„Það er ég sem á­kveð þetta og það er mjög erfitt fyrir móður að þiggja brjósta­mjólk frá öðrum konum. Hún sættist á það en það var mjög erfitt.“ 

Hún í­trekar þakk­læti sitt til konunnar sem út­vegaði fjöl­skyldunni mjólk og harmar það að slík gjöf sé gerð tor­tryggi­leg. „Við erum henni svo hrylli­lega þakk­lát. Í mínum huga er hún dýrlingur,“ segir Hrefna. 

Um­ræðan um brjósta­mjólkur­drykkju vaxta- og líkams­ræktar­fólks segir hún furðu­lega. „Mér finnst þetta bara svo fá­rán­legt. Ef þú hugsar út í það. Þú horfir á Haf­þór Júlíus [Björnsson, sterkasta mann heims], hvað heldurðu að honum gagnist ein­hverjir 4-500 milli­lítrar af brjósta­mjólk?“