Andrew Breta­prins hefur nú tjáð sig um sam­band sitt við milljarða­mæringinn Jef­frey Ep­stein en hann ræddi við Emily Mait­lis hjá Newsnight á BBC í við­tali sem sýnt var í kvöld. Þrátt fyrir ítar­legt við­tal er ýmsu enn ó­svarað í sam­bandi við tengsl prinsins við Ep­stein.

Ep­stein var hand­tekinn síðast­liðinn júlí þar sem hann var sakaður um man­sal, mis­notkun á stúlku­börnum og vörslu á barna­klámi en hann fannst látinn í fanga­klefa sínum í ágúst. Þá hafði grunur verið á lofti að Ep­stein hafi veitt valda­miklum vinum sínum að­gang að stelpum sem hann hélt í kyn­lífs­á­nauð. Ein þeirra, Viginia Robert Giuf­fre, steig fram í septem­ber og greindi frá því að henni hafi verið gert að sofa hjá Andrew sem var þá vinur Ep­steins.

Andrew neitar að hafa hitt Virginiu þrátt fyrir að mynd af þeim saman hafi náðst.
Mynd/Virginia Roberts

Í við­talinu neitar Andrew á­sökunum Virginiu, sem þá hét Virginia Roberts, og neitar að hafa nokkurn tíma hitt hana þrátt fyrir að mynd af honum hafi farið í birtingu þar sem hann heldur utan um mitti hennar þegar hún var sau­tján ára. Þá segir hann að hann hafi verið heima með börnunum sínum þegar Virgina segir að hann hafi misnotað sig.

Andrew neitar því einnig að hann hafi vitað af glæpum Ep­steins og segir ekki hafa tekið eftir neinu grun­sam­legu í fari Ep­steins. Þá segir prinsinn að hann hafi hætt öllum sam­skiptum við Ep­stein eftir að í ljós kom að Ep­stein væri rann­sakaður fyrir brot á börnum árið 2006. Hann hafi þó sést með Ep­stein og gist á heimili hans þegar Ep­stein var sleppt úr fangelsi árið 2010.