Starfsleyfisumsókn gas- og jarðargerðastöðvar Sorpu var lögð fram á fundi umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkurborgar í gær. Bygging stöðvarinnar hefur farið langt fram úr kostnaðaráætlunum sem hefur valdið því að sveitarfélögin sem eiga fyrirtækið hafa þurft að ábyrgjast frekari lánveitingar til félagsins.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokks lögðu fram bókun þar sem lýst var yfir áhyggjum að því að rekstrargrundvöllur stöðvarinnar væri brostin því engin eftirspurn væri fyrir metangasi sem að framleiða á í stöðinni og selja. Þá væri mikil óvissa um gæði moltu sem yrði framleidd í stöðinni en markmið Sorpu með því að framleiða þá afurð er að minnka urðun sorps verulega.

Þá vísaði minnihlutinn í umfangsmikla umfjöllun Stundarinnar um málefni Sorpu í síðustu viku. Þar var haft eftir þýskum sérfræðingum að tæknin sem gas- og jarðgerðarstöðin hyggðist nota og keypt væri frá danska fyrirtækinu Aikan A/S byggðist á úreltri tækni.

Örlög sambærilegrar verksmiðju í Elverum í Noregi,  sú eina utan Danmörku sem Aikan hefur átt þátt í að reisa, urðu þau að stöðin varð gjaldþrota án þess að komast nokkurn tímann almennilega í gang og kostaði skattgreiðendur norska sveitarfélagsins stórfé.

Fulltrúar meirihlutans í Reykjavík brugðust ókvæða við þessum fullyrðingum og létu færa til bókar harðort andsvar. Í því kemur fram að minnihlutinn hafi haldið fram rangfærslum sem ekki standist skoðun og byggist á staðlausum ávirðingum. Allt að 15 þúsund tonn af moltu sem stöðin mun framleiða verði fyrsta flokks og að öllum líkindum seld til landgræðslufélaga. Þá fari metanið fljótlega í sölu og ýmsir bolta á lofti varðandi nýtingu þess.

Umfjöllun Stundarinnar um málið.