Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir dóms­mála­ráð­herra segir að frum­varp Pírata um af­glæpa­væðingu neyslu­skammta fíkni­efna hafi verið fellt á Al­þingi vegna þess að það var ekki nógu vel unnið. Þetta segir Ás­laug í langri færslu á Face­book-síðu sinni.

Ás­laug segist sjálf vera þeirrar skoðunar að ekki eigi að refsa ein­stak­lingum fyrir að nota fíkni­efni og segist hún ætla að halda á­fram að beita sér fyrir af­glæpa­væðingu.

Ás­laug segir að þó hún hafi í grunninn verið sam­mála mark­miðum frum­varpsins þá hafi frum­varpið ekki verið nægjan­lega vel unnið.

Réttara að vanda til verka

„Þetta er ekki á­lyktun fé­lags­sam­taka eða stjórn­mála­flokks, heldur lands­lög sem fela í sér refsi­heimild. Því er enn meiri á­stæða til að vanda sig þegar gera á breytingar á þeim. Það voru ýmsir al­var­legir gallar á frum­varpi Pírata. Í stað þess að greiða at­kvæði um gallað frum­varp hefði verið réttara að vanda til verka og halda vinnunni á­fram.“

Sem dæmi um galla á frum­varpinu segir Ás­laug að ekkert í frum­varpinu hafi skil­greint neyslu­skammt. Í við­tali við Frétta­blaðið um helgina sagði Sara Elísa Þórðar­dóttir, vara­þing­maður Pírata, að á­stæðan fyrir því hafi verið sú að eðli­legast þótti að ráð­herra hefði svig­rúm til að leggja mat á það sjálfur. Ás­laug segir að ekki sé hægt að búa til eða af­nema refsi­ramma um mats­kennd at­riði sem ekki eru skil­greind í lögum.

Heitir því að taka þátt í vinnunni

„Hér er um að ræða líf fólks, við­kvæmt mál­efni og flókin sjúk­dóm. Þess heldur er mikil­vægt að lögin séu skýr. Ef ráðast á í sam­bæri­legar breytingar og gerðar voru í Portúgal þarf að líta á þær að­gerðir í heild, t.d varðandi að­stoð við fíkla, með­ferðar­úr­ræði, fé­lags­ráð­gjöf og fleira. Þetta þarf að fara saman.“

Þá segir hún eðli­legt að frum­vörp sem breyta fram­kvæmd séu unnin í sam­starfi við sér­fræðinga og þá aðila sem beita lögunum, til dæmis refsi­réttar­nefnd, ríkis­sak­sóknara og lög­reglu. „Í kjöl­farið er eðli­legt að frum­varpið fari í opið sam­ráð. Það er rétt að ráðast í þetta ferli sem fyrst. Önnur at­riði eru tækni­leg og eftir til­vikum flókin, en ekkert sem ekki er hægt að leysa með réttum og vönduðum vinnu­brögðum. Ég mun taka þátt í þeirri vinnu af heilum hug,“ segir hún.

Píratar svara

Þó nokkrar at­huga­semdir hafa verið gerðar við færslu Ás­laugar Örnu, meðal annars frá Pírötum. Hall­dór Auðar Svans­son, fyrr­verandi borgar­full­trúa Pírata, segir það fagnaðar­efni að enginn treysti sér til að tala gegn málinu. Það renni stoðum undir það að málinu verði náð í höfn fyrir rest. Hann gagn­rýnir samt þau orð Ás­laugar í pistlinum að Sjálf­stæðis­flokkurinn hafi fyrstur sett málið á dag­skrá.

„Ég get samt ekki látið hjá líða að segja hversu ó­trú­lega ó­merki­legt það er að fara núna að slá sér upp á því að 'Sjálf­stæðis­flokkurinn setti málið á dag­skrá fyrstur flokka' af því að heil­brigðis­ráð­herra flokksins hóf vinnu við það - þegar það gerðist sem af­leiðing af þings­á­lyktunar­til­lögu sem reyndar voru flutnings­menn úr nokkrum flokkum með á en var sett á dag­skrá af Pírötum.“

Halldór Auðar segir ómerkilegt að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi fyrstur sett málið á dagskrá.
Mynd/Daníel Rúnarsson

Segir Hall­dór það renna frekari stoðum undir þann grun að per­sónu­leg kergja í garð Pírata sé að þvælast fyrir – mál­efnið sé látið líða fyrir það að Píratar fái engan heiður af því. „Ömur­legt. Þið sem hafið verið í ríkis­stjórn hafið haft mörg ár til að klára þetta en sára­lítið gert í því, gerið það þá bara.“

Yfir­klór og eftir­á­skýringar

Unnar Þór Sæ­munds­son, fyrr­verandi gjald­keri Pírata, blandar sér einnig í um­ræðuna en hann birti færslu um liðna helgi sem vakti mikla at­hygli. Hvatti hann þing­menn til að sam­þykkja frum­varpið en um leið minntist hann vinar síns sem lést 27 ára vegna of­neyslu vímu­efna.

„Ég leyfi mér sjaldan að hafa ein­hverjar væntingar til Sjálf­stæðis­fólks en til þín hef ég haft miklar því ég trúði því að þú hefðir raun­veru­legan á­huga á að breyta hlutum, þú hefðir raun­veru­legan á­huga á frelsi og réttinum til lífs,“ segir Unnar sem bætir við að hún hafi sýnt með af­stöðu sinni að hann hafði rangt fyrir sér. Það sé sorg­legt. Þá segir hann að enn hafi engin gild rök verið sett fram um hverjir gallarnir á frum­varpinu ná­kvæm­lega voru.

„Þið töng­list á sömu tuggunni um að mikið hafi vantað upp á en hafið ekki í eitt skipti fært hald­bær rök fyrir þeim stað­hæfingum og það sem þetta heitir er yfir­klór og eftir­á­skýringar. Við vitum öll hverjar raun­veru­legu á­stæðurnar eru fyrir því að þetta var fellt og það sem best er að fólk er ekki að kaupa skýringarnar ykkar. Ég hlakka til að sjá ykkar stolnu fjaðrir og hvernig […] þær verða frá­brugðnar þessu frumvarpi.“

Unnar Þór Sæmundsson, fyrrverandi gjaldkeri Pírata, segir að engin haldbær rök hafi komið fram um þá galla sem sagðir hafa verið á frumvarpinu.
Fréttablaðið/Valli.

Frá því að ég hóf þátttöku í stjórnmálum hef ég verið þeirrar skoðunar að það eigi ekki að refsa einstaklingum fyrir...

Posted by Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir on Fimmtudagur, 2. júlí 2020