Fimm fyrirtæki sem öll selja mat- eða drykkjarvörur hafa boðað víðtækar verðhækkanir í byrjun ágústmánaðar. Tilkynningar þess efnis bárust frá fyrirtækjunum Vífilfelli, CCEP, Kötlu, Heilsu og Kalla K í morgun.

Í tilkynningunum kemur fram að helsta ástæða hækkananna er veiking íslensku krónunnar sem hefur leitt af sér aukinn kostnað við innkaup og flutning á fullunnum vörum, umbúðum og hráefnum til framleiðslu. Þá eru launahækkanir í kjölfar nýrra kjarasamninga einnig nefndar sem áhrifaþáttur.

Verðbreytingar Ölgerðarinnar felast í 2,9% hækkun á öllum framleiðsluvörum fyrirtækisins og taka gildi þann 5. ágúst næstkomandi. Degi síðar mun CCEP, eða Coca-Cola European Partners á Íslandi, hækka verð á sínum vörum um 3%.

Katla matvælaiðja mun þá í ljósi gengishækkana, launahækkana og annars aukins rekstrarkostnaðar hækka verð á öllum sínum vörum um 4,5% frá og með 2. ágúst. Í tilkynningu frá Kötlu segir að fyrirtækið hafi reynt að bíða eins lengi og hægt var með hækkunina en að nú sé því miður ekkert annað í stöðunni.

Heilsa ehf. mun þá einnig hækka verð á sínum vörum þann 1. ágúst vegna hækkana frá erlendum birgjum, hækkun á gengi og innlendum kostnaði. Flestar vörur fyrirtækisins hækka um 3,5% en einnig má sjá hækkanir upp á 6% og 10% á tveimur drykkjarvörum þess.

Fyrirtækið Kalli K sér sig þá einnig knúið til að hækka sín verð vegna veikingar krónunnar og hækkunar á gengisvísitölu en hækkanirnar taka gildi þann 22. júlí. Sælgæti fyrirtækisins, matvara og drykkjarvara mun hækka um 4%. Þá segir í tilkynningu fyrirtækisins að fylgst verði vel með svigrúmi til að lækka verðin aftur.

Verð á matvælum hafa hækkað hjá ýmsum fyrirtækjum upp á síðkastið en kjötframleiðslufyrirtækin Ali og Sláturfélag Suðurlands hafa hækkað sín verð, sum um allt að 15%.