Öskugos hófst í eldfjallinu Taal á Filippseyjum á sunnudag og á mánudag fór hraun að renna úr fjallinu. Taal, sem er á eyjunni Luzon í norðurhluta eyjaklasans og 70 kílómetrum sunnan við höfuðborgina Manila, er mjög virkt eldfjall og jarðskjálftar tíðir í kringum það. Síðast gaus fjallið árið 1977 en að meðaltali hefur það gosið á 15 ára fresti síðustu 500 árin.

Strax eftir að öskugosið hófst lýstu stjórnvöld yfir neyðarástandi og hófu að rýma svæðið í kringum fjallið, hérað sem kallast Batangas. Þurftu átta þúsund manns að yfirgefa heimili sín.

Taal er ekki landtengt við Luzon eyju sjálfa en stendur stutt frá ströndinni. Jarðfræðistofnun Filippseyja, Philvolcs, hafa hins vegar áhyggjur af því að gosið gæti hrundið flóðbylgju af stað yfir á ströndina. Þá er einnig óttast að öskufall, gas og steinar úr sprengingum gætu ógnað byggðinni auk þess sem mikil hætta er talin á stóru sprengigosi á komandi dögum.

Alls býr um hálf milljón manns á hættusvæðinu og stjórnvöld stefna að því að koma öllum burt. Philvolcs hafa einnig beðið um allsherjarrýmingu. Þegar hafa allar rykgrímur klárast í verslunum og apótekum. Þykk askan reis um 15 kílómetra upp í loftið og lagðist yfir allt. Myndaðist víða drullusvað og bílar fólks sem reyndi að komast burt festust í eðjunni.

Öskuskýið varð sífellt dekkra með hverjum klukkutímanum og að lokum var öll flugumferð um Manila stöðvuð. Viðbúnaðarstig var hækkað í 4 af 5 mögulegum á mánudag og strax í 5 síðar um daginn.

Herinn var sendur á svæðið til að aðstoða fólk við að komast í burtu en auk þeirra sem skipað var að fara hafa tugir þúsunda flúið af sjálfsdáðum. Hafa margir nýtt sér sérstök neyðarskýli sem stjórnvöld komu upp. Þá hefur Rauði krossinn sent fólk á svæðið til að aðstoða.

Þó að fólkið sem býr í námunda við fjallið sé í mestri hættu hafa stjórnvöld einnig áhyggjur af fjarlægari svæðum. Alls búa um 25 milljónir manna í 100 kílómetra radíus við fjallið og askan berst langar leiðir með vindi. Þá hafa stjórnvöld einnig áhyggjur af vatnsbólum og landbúnaðarsvæðum.

Þegar eldgosið hófst á sunnudag var parið Chino Vaflor og Kat Palomar að láta pússa sig saman. Vígslan var utandyra og sáu gestirnir strókinn rísa hærra og hærra á bak við turtildúfurnar sem sóru sína eiða. Gestirnir héldu stillingu sinni og veislan var ekki blásin af. „Við fundum öskuna rigna niður yfir okkur,“ sagði brúðkaupsljósmyndarinn Randolf Evan. „En við urðum ekkert smeyk fyrr en um nóttina þegar askan þykknaði og varð að leðju.“