Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi borgarstjóri og utanríkisráðherra segir að tillaga borgarfulltrúanna Vigdísar Hauksdóttur og Kolbrúnar Baldursdóttur um að vísa skýrslu innri endurskoðunar um braggamálið til héraðssaksóknara sé algjörlega fráleit. Þetta kemur fram í Facebook færslu sem Ingibjörg skrifar um málið.

Líkt og fram hefur komið lögðu þær Vigdís og Kolbrún tillöguna fram síðasta fimmtudag og sagði Vigdís að í skýrslunni mætti finna „mjög alvarlegar athugasemdir og ábendingar“ meðal annars um „alvarleg lögbrot.“

Ingibjörg Sólrún segir að skýrslan beri stjórnsýslu borgarinnar vissulega ekki fagurt vitni.

„Tillaga um að vísa skýrslunni til héraðssaksóknara er hins vegar fráleit enda ekkert í skýrslunni sem gefur tilefni til þess og tillagan er til þess eins sett fram að ýta undir hugmyndir um að tilteknir einstaklingar hafi gerst sekir um refsivert athæfi.“

Þá lýkur Ingibjörg færslunni á að segja að þetta sé til marks um hvernig hægt sé að eyðileggja nauðsynlega og málefnalega umræðu um erfið mál. „Svona getur nú pólitíkin verið ljót.“