Yfir­völd í Victoriu-ríki Ástralíu hafa á­kveðið að fram­lengja út­göngu­bann í Mel­bour­ne um eina viku vegna stöðu CO­VID-19 en Kappa af­brigði veirunnar, sem varð fyrst vart á Ind­landi, veldur nú miklum usla í ríkinu. Út­göngu­bannið verður í gildi fram til 10. júní en það tók fyrst gildi síðast­liðinn föstu­dag.

„Ef við leyfum þessu að ganga sinn vana­gang, þá mun þetta springa,“ sagði James Merlino, ríkis­stjóri Victoriu, um stöðu mála að því er kemur fram í frétt Reu­ters. Frá upp­hafi far­aldursins hafa rúm­lega 30 þúsund smit greinst í Ástralíu, lang­flest þeirra voru í Victoriu, næst fjöl­mennasta ríkis Ástralíu.

Hópsmit rakið til ferðamanns

Gripið var til að­gerða eftir að hóp­smit kom upp í maí en þau smit voru fyrstu sam­fé­lags­smitin í rúma þrjá mánuði í Ástralíu. Að sögn yfir­valda má rekja þau smit til ferða­manns sem greindist skömmu eftir að hafa lokið dvöl á sótt­varna­húsi.

Í heildina hafa 60 smit greinst í tengslum við hóp­smitið en þrátt fyrir að til­tölu­lega fá smit séu nú að greinast dag­lega er óttast að veiran geti hæg­lega breiðst út ef ekki er gripið til að­gerða. Því hafi yfirvöld farið eftir tilmælum heilbrigðisyfirvalda um að framlengja útgöngubannið. „Ef við gerum það ekki þá mun þetta sleppa frá okkur og fólk mun deyja,“ sagði Merlino.

Vilja ekki sjá söguna endurtaka sig

Um er að ræða fjórða út­göngu­bannið sem yfir­völd hafa gripið til frá upp­hafi far­aldursins, til að mynda gripu þau til hvað hörðustu að­gerða í heiminum í vetur til að stöðva út­breiðslu veirunnar. Að sögn Merlino vill enginn sjá söguna endur­taka sig og því þurfi að grípa inn í strax.

Í­búar í Mel­bour­ne, sem eru um fimm milljón talsins, mega nú ekki yfir­gefa heimili sín að á­stæðu­lausu og mega að­eins ferðast vegna nauð­syn­legrar vinnu, til að leita læknis­að­stoðar, til að versla inn mat, fyrir líkams­rækt, og fyrir bólu­setningu. Annars staðar í ríkinu verður þó lík­lega slakað á tak­mörkunum ef smit eru í lág­marki.