Skortur á smokkum vofir yfir heims­byggðinni eftir að stærsti smokka­fram­leiðandi heims lokaði verk­smiðjum sínum vegna kóróna­veirufar­aldursins. Þegar er kominn skortur á vissum tegundum smokka.


Smokka­fram­leiðandinn Karex Bhd, sá stærsti í heimi, hefur ekki fram­leitt einn einasta smokk síðustu vikuna í þremur verk­smiðjum sínum í Malasíu sem hefur verið lokað. Talið er að einn af hverjum fimm smokkum í heiminum sé fram­leiddur hjá Karex Bhd en fyrir­tæki á borð við Durex og helstu heil­brigðis­stofnanir nota smokka þaðan.


Sér­stök undan­þága frá sam­komu­banni hefur verið veitt í Malasíu og mega verk­smiðjurnar taka aftur til starfa en nú að­eins með starf­semi sem er helmingi minni en hún var fyrir bannið. „Það mun taka tíma að koma verk­smiðjunum aftur í gang og það verður erfitt fyrir okkur að anna eftir­spurninni þegar að­eins 50% starf­semi okkar er í gangi,“ sagði for­stjóri fyrir­tækisins í sam­tali við er­lenda fjöl­miðla.

Goh Miah Kiat, forstjóri Karex Bhd.
Fréttablaðið/Getty

Yfir tvö þúsund hafa greinst með kóróna­veiruna í Malasíu og hafa 26 látist þar úr CO­VID-19. Sam­komu­bannið sem er þar í gildi á að ljúka þann 14. apríl.


Nokkrum smokka­verk­smiðjum í Kína var þá lokað þegar far­aldurinn náði há­marki í austur­hluta landsins í desember síðasta árs og fram í janúar. Smitum fjölgar þá ört á Ind­landi og í Tæ­landi en þar er mikið um smokka­verk­smiðjur.


„Góðu fréttirnar fyrir okkur er eftir­spurnin því hún er enn mjög mikil – smokkar eru enn ó­missandi vara fyrir alla,“ segir for­stjóri Karex. „Svo efast ég um að fólk sé að reyna að eignast börn á þessum tímum. Þetta er ekki rétti tíminn þegar það er svona mikil ó­vissa í heiminum.“