Yfirstjórn Menntamálastofnunar (MMS) og forstjórinn, Arnór Guðmundsson, fá falleinkunn í áhættumati sem mannauðsfyrirtækið Auðnast framkvæmdi að beiðni ráðuneytisins. Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, eru sjö af ellefu áhættuþáttum metnir rauðir, sem táknar óviðunandi áhættu sem nauðsynlegt er að bregðast við án tafar.

Í niðurstöðunum segir: „… núverandi stjórnarhættir hafa skapað óæskilegan starfsanda sem ógnar öryggi og heilsu starfsfólks.“ Öll atriðin tengjast stjórnun með beinum eða óbeinum hætti. Þá hefur meirihluti starfsfólks lýst yfir vantrausti á hendur forstjóranum, Arnóri Guðmundssyni.

Meðal þess sem kemur fram í matinu er að helmingur starfsfólks telji sig hafa orðið vitni að eða upplifað einelti, kynferðislega, kynbundna áreitni eða ofbeldi á vinnustað.

Starfsánægju ábótavant

Starfsánægja og starfsandi innan stofnunarinnar eru metin að þeim sé mjög ábótavant og ríkjandi orðræða í viðtölum við starfsfólk beri merki þess að óheilbrigð þróun starfsanda, sem rekja megi til stjórnarhátta, hafi fengið að viðgangast í langan tíma.

Tillögur um greiningu, fræðslu og stjórnendahandleiðslu hafa ekki borið árangur. Dæmi eru um „alvarlegar afleiðingar á sjálfsmynd og lífsánægju starfsfólks“ og þegar hafi komið upp dæmi um alvarleg veikindi með áhrifum á heilsufar, fjarveru frá vinnu til lengri tíma og uppsagnir.

Arnór Guðmundsson vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu. Að sögn Kristrúnar Heiðu Hauksdóttur, upplýsingafulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytisins, hefur ályktun trúnaðarmanna MMS borist ráðuneytinu.

Áhættumatið fór fram að beiðni Menntamálaráðuneytisins.
Fréttablaðið / Stefán

Þrír hafa sagt upp störfum vegna stjórnunarvanda

Bráðabirgðaniðurstöður áhættumats á starfsumhverfi innan Menntamálastofnunar sýna að sjö af ellefu áhættuþáttum eru metnir rauðir, sem táknar óviðunandi áhættu sem nauðsynlegt er að bregðast við án tafar. Tveir þættir eru metnir gulir, sem táknar viðunandi áhættu er kallar á öryggisráðstafanir og eftirlit. Aðeins tveir eru grænir sem táknar viðunandi áhættu.

Starfsandi er metinn rauður og fram kemur að skiptar skoðanir séu um starfsanda á meðal starfsfólks. Sem dæmi má nefna ítrekaða árekstra í samskiptum, lítinn samgang milli deilda, óhjálplegar samskiptaaðferðir, valdabaráttu, tímaskort við verkefni og skort á samvinnu og samhygð.

„Ríkjandi orðræða í viðtölum bar merki þess að óheilbrigð þróun starfsanda hafi fengið að viðgangast í langan tíma sem rekja megi til stjórnarhátta. Fyrir vikið er traust og virðing í garð stjórnenda rýr og vísbendingar um að starfsfólk hafi misst trú og tilgang í starfi,“ segir í niðurstöðunum.

Eineltismál, stjórnarhættir og óheilbrigður starfsandi eru sögð hafa dregið úr tækifærum fólks til að sýna eiginleika og frumkvæði.

Allir áhættuþættir er viðkoma stjórnun stofnunarinnar eru metnir rauðir. Fram kemur að starfsfólk upplifi misræmi í stjórnun og meirihluti þess hafi óskað eftir breytingum á núverandi stjórnarháttum og stjórnendum. Í viðtölum mátti greina skýrar vísbendingar um að starfsfólk hafi íhugað uppsögn ef ekki verður ráðist í breytingar á yfirstjórn. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa þrír starfsmenn þegar sagt upp störfum vegna þess sem þeir lýsa sem stjórnunarvanda, stefnuleysi, hentileikastefnu, skorti á yfirsýn yfir verkefni og fjármál og eineltistilburðum forstjórans.