Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar, Kyrylo Budanov, hefur gefið til kynna samsæriskenningu um að Vladímír Pútín Rússlandsforseti hafi notast við tvífara, í heimsókn sinni til Írönsku borgarinnar Tehran í vikunni þar sem hann fundaði með Ali Khamenei æðstiklerk Írans.

Budanov fannst Pútín vera full léttur á fæti í stuttu myndbroti sem náðist af honum er hann gekk úr flugvél eftir lendingu í Íran. Eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst á þessu ári hefur mikið verið fjallað um heilsu Pútíns og margir haldið því fram að hann sé alvarlega veikur.

„Ég mun einungis ýja að þessu,“ er haft er eftir Budanov sem tjáði sig við úkraínsku fréttastöðina 1+1.

„Sjáið augnablikið þegar Pútín gengur úr vélinni. Er þetta í raun og veru Pútín?“ spurði hann.

Budanov hefur verið einn þeirra sem segir að rússneski forsetinn sé dauðvona og heldur því fram að hann sé með krabbamein. Auk þess hefur hann greint frá banatilræði í garð Pútíns, sem hann segir að hafi misheppnast algjörlega.

Þess má geta að Pútín hefur viðurkennt að sér hafi verið boðið að nota tvífara af öryggisástæðum, en segist hafa hafnað hugmyndinni. Það var snemma á þessari öld og tengdist stríðinu við Tsjetsjeníu

Samsæriskenningar í þessa átt hafa fundist víða á Internetinu síðastliðin ár.