Lars Findsen, yfirmaður leyniþjónustu danska hersins (FE) síðan 2015, hefur verið í varðhaldi síðan 9. desember grunaður um að leka „háleynilegum gögnum“ sem talið er að geti skaða öryggi danska ríkisins eða samskipti landsins við önnur lönd.
Findsen hefur verið í leyfi frá störfum síðan í ágúst árið 2020 eftir að uppljóstrarar greindu frá því að leyniþjónustan hefði njósnað um danska þegna.
Dómari í Kaupmannahöfn ákvað að aflétta nafnleynd af Findsen og sagði verjandi hans, Lars Kjeldsen, að það væri gert að kröfu skjólstæðings síns. Saksóknarar voru sama sinnis og því hafa danskir fjölmiðlar greint frá nafni hans. Hann á yfir höfði sér allt að tólf ára fangelsi.

Findsen var handtekinn ásamt þremur öðrum núverandi og fyrrverandi starfsmönnum leyniþjónusta landsins. Auk FE er önnur leyniþjónusta í Danmörku, PET sem er leyniþjónusta lögreglunnar.
Greint var frá handtökunni 9. desember í fréttatilkynningu frá PET, sem farið hefur með rannsókn málsins. Þar kom einungis fram að fjórir starfsmenn leyniþjónustustofnana landsins hefðu verið handteknir vegna gruns um að hafa lekið trúnaðargögnum. Hinum þremur hefur verið sleppt.
Lögreglan á Austur-Jótlandi hefur tekið við rannsókn málsins úr höndum PET. Samkvæmt heimildum danska ríkisútvarpsins hefur verið fylgst náið með Findsen í nokkurn tíma og símar hans hleraðir.
PET hyggst ekki veita frekari upplýsingar um málið, umfram að það varði leka á „háleynilegum gögnum“. Hverjir voru viðtakandar lekans, erlend ríki, fjölmiðlar eða aðrir liggur ekki fyrir.