Lars Find­sen, yfir­maður leyni­þjónustu danska hersins (FE) síðan 2015, hefur verið í varð­haldi síðan 9. desember grunaður um að leka „há­leyni­legum gögnum“ sem talið er að geti skaða öryggi danska ríkisins eða sam­skipti landsins við önnur lönd.

Find­sen hefur verið í leyfi frá störfum síðan í ágúst árið 2020 eftir að upp­ljóstrarar greindu frá því að leyni­þjónustan hefði njósnað um danska þegna.

Dómari í Kaupmannahöfn ákvað að af­létta nafn­leynd af Find­sen og sagði verjandi hans, Lars Kjeld­sen, að það væri gert að kröfu skjól­stæðings síns. Sak­sóknarar voru sama sinnis og því hafa danskir fjöl­miðlar greint frá nafni hans. Hann á yfir höfði sér allt að tólf ára fangelsi.

Lars Find­sen og Lone Wis­borg, að­stoðar­send­herra Dan­merkur í Pól­landi, árið 2007.
Fréttablaðið/EPA

Find­sen var hand­tekinn á­samt þremur öðrum nú­verandi og fyrr­verandi starfs­mönnum leyni­þjónusta landsins. Auk FE er önnur leyni­þjónusta í Dan­mörku, PET sem er leyni­þjónusta lög­reglunnar.

Greint var frá hand­tökunni 9. desember í frétta­til­kynningu frá PET, sem farið hefur með rann­sókn málsins. Þar kom einungis fram að fjórir starfs­menn leyni­þjónustu­stofnana landsins hefðu verið hand­teknir vegna gruns um að hafa lekið trúnaðar­gögnum. Hinum þremur hefur verið sleppt.

Lög­reglan á Austur-Jót­landi hefur tekið við rann­sókn málsins úr höndum PET. Sam­kvæmt heimildum danska ríkis­út­varpsins hefur verið fylgst náið með Find­sen í nokkurn tíma og símar hans hleraðir.

PET hyggst ekki veita frekari upp­lýsingar um málið, um­fram að það varði leka á „há­leyni­legum gögnum“. Hverjir voru við­takandar lekans, er­lend ríki, fjöl­miðlar eða aðrir liggur ekki fyrir.