Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna birti í gær eiðsvarna yfirlýsingu sem rökstuddi umsókn rannsóknaryfirvalda um leitarheimild á heimili Donalds Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta á Mar-a-Lago-óðalsetrinu í Flórída. Bandaríska alríkislögreglan gerði húsleit á setrinu fyrr í ágúst vegna ábendingar um að þar væri að finna opinber trúnaðarskjöl sem Trump hefði haft með sér þegar hann lét af forsetaembætti í byrjun 2021.

Eins og búist var við voru stórir hlutar yfirlýsingarinnar strikaðir út. Dómsmálaráðuneytið hafði fært rök fyrir nauðsyn þess að halda hlutum hennar leyndum til að vernda vitni sem gáfu ábendingar um að trúnaðargögn væri að finna á óðalsetrinu. Í texta sem skilinn var eftir óstrikaður kemur þó fram að ákæruvaldið hafi talið rökstuddan grun liggja fyrir um að trúnaðargögn um varnarmál væri að finna í tilteknum herbergjum í Mar-a-Lago, þar á meðal íbúð Trumps, skrifstofu hans og öðrum einkarýmum.

Það að alríkislögreglan hafði grun um tiltekin herbergi þar sem skjölin væri að finna kann að renna stoðum undir þá kenningu að ábendingin hafi borist frá uppljóstrara sem hafði aðgang að Mar-a-Lago-setrinu.