Atvik sem varð í Bankastræti aðfararnótt laugardags og Fréttablaðið greindi frá fyrr í dag er til athugunar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins ber myndskeiðum af myndavélum lögreglu ekki saman við frásögn rúmlega tvítugs manns sem fór á bráðamóttöku eftir handtöku og er talinn vera kjálkabrotinn. Samkvæmt skýrslu læknisins lýsti maðurinn aðdragandanum þannig að hann hafi verið að taka aðgerðir lögreglu upp á símann sinn og lögreglumaður hafi slengt honum í jörðina með þeim afleiðingum að tennur brotnuðu, skurður komið á höku og kjálki hans mögulega brotinn.

Heimildir Fréttablaðsins herma að myndskeið úr búkmyndavélum lögreglumanna á vettvangi sýni að maðurinn hafi þegar verið með áverkana þegar lögregla kom á vettvang en hún var kölluð til vegna hópslagsmála á staðnum. Þá sýni myndir úr búkmyndavél einnig að maðurinn sem var að taka upp hafi verið settur niður á rassinn en ekki andlitið eins og maðurinn hélt fram á bráðamóttöku.

Mynd­bandið sem maðurinn tók er komið í dreifingu á sam­fé­lags­miðlum en á því má sjá hvar tveir lög­reglu­menn eru að hand­taka mann þegar annar þeirra æðir að þeim sem var að taka upp, beindi pipar­úða að and­liti hans og hrópaði á hann að leggjast niður, en lengra nær myndskeiðið ekki.

Búast má við að atvikið verði tilkynnt til nefndar um eftirlit með störfum lögreglu eins og gert er þegar lögregla er borin sökum sem þessum.

Yfirlýsingar er að vænta frá lögreglu vegna málsins.