Framsókn er í algjörri lykilstöðu varðandi myndun meirihlutans í Reykjavík eftir úrslit kosninganna, segir Grétar Þór Eyþórsson prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri.

Þrátt fyrir að fólk hafi getað átt von á að Framsókn myndi bæta við sig fulltrúum segir Grétar Þór stóra sigra flokksins hljóta að hafa komið öllum að óvart, ekki síst flokksmönnum sjálfum.

Aðspurður hvernig hann túlki sigurgöngu Framsóknarflokksins segir Grétar Þór ekkert eitt svar til við því. Hins vegar hafi flokkurinn unnið ágætis sigur í þingkosningunum síðasta haust og svo virðist sem flokkurinn haldi þeirri vegferð áfram.

Ýmsar leiðir í boði

„Auðvitað er Framsókn í algjörri lykilstöðu með hvað verður gert og það er auðvitað spurning um við hvern þeir tala við fyrst. Hvort líta þeir til hægri eða til meirihlutans," segir Grétar Þór aðspurður um framhaldið.

„Dagur borgarstjóri er nú þegar búinn að gefa sterklega í skyn að hann sé tilbúinn að vinna með Framsóknarflokknum. Hann lýsti því yfir í nótt að þeir málefnalega sammála á mikilvægum sviðum,“ segir Grétar Þór og heldur áfram: „Svo er auðvitað þetta að bæta Sósíalistum við við þann meirihluta sem féll, það myndi útaf fyrir sig duga en leiðtogi Sósíalista er búinn að afskrifa samstarf við Viðreisn. Þannig sú leið er sennilega eitthvað torfærari.“

Grétar Þór telur líklegt að einfaldari leiðin sé að núverandi meirihluti kanni samstarf við Framsóknarflokkinn. „Framsókn hefur þessa stöðu að geta svolítið ráðið því hvurslags meirihluti verði myndaður.“

Takmarkandi yfirlýsingar

Að sögn Grétars Þórs eru þau ýmsar leiðir í boði til að mynda meirihluta. Hægt væri að mynda meirihluta með að bæta Sósíalistaflokknum við og henda Viðreisn út úr stjórnarsamstarfinu og þá taka inn Flokk fólksins einnig. „Maður veit ekki hvort þetta er bara tölfræðilegur möguleiki eða málefnalegur möguleiki en það er hægt að leika sér að einhverju svona.“

Þá geti Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn með samtals tíu fulltrúa fengið tvo aðra flokka til samstarfs við sig. Grétar Þór segir spurninguna um hverjir það gætu verið snúna.

„Það liggja fyrir ákveðnar yfirlýsingar um hverja fólk vill alls ekki og það takmarkar auðvitað alltaf aðeins leiðirnar sem eru færar,“ segir Grétar Þór.