Elísabet Bretadrottning segir að konungsfjölskyldan muni skipuleggja útgöngu Harry Bretaprins og Meghan Markla, hertogaynjunnar af Sussex, úr konungsfjölskyldunni og vinna úr öllum fjármagnsmálum á næstu dögum. Þetta kemur fram í tilkynningu sem konungsfjölskyldan sendi á fjölmiðla nú rétt í þessu. Harry og Meghan tilkynntu í síðustu viku á Instagram að þau ætli að láta af opinberum störfum sínum fyrir bresku konungsfjölskylduna. Málið hefur vægast sagt valdið fjaðrafoki.

„Fjölskylda mín átti uppbyggilegar samræður um framtíð barnabarns míns og fjölskyldu hans,“ segir í yfirlýsingu drottningarinnar. „Ég og fjölskylda mín styðjum heils hugar ákvörðun Harrys og Meghan um að hefja nýtt líf sem ung fjölskylda.“

Breska konungsfjölskyldan hittist á krísufundi í dag þar sem framtíð Harry og Meghan var rædd.

„Þó að við hefðum frekar viljað hafa þau áfram í fullu starfi innan konungsfjölskyldunnar, þá virðum við og skiljum ósk þeirra um að fá að lifa sjálfstæðara lífi sem fjölskylda. Þau verða áfram mikilsmetinn hluti af fjölskyldu minni. Harry og Meghan hafa látið það í ljós að þau vilji ekki reiða sig á almannafé í nýja lífi þeirra,“ segir Elísabet.

„Þess vegna hefur sú ákvörðun verið tekin um að nú taki umbreytingarskeið þar sem hertogahjónin af Sussex munu verja sínum tíma í Kanada og í Bretlandi. Þetta eru flókin mál fyrir fjölskylduna að leysa, og við eigum enn eftir að leysa úr nokkrum málum, en ég hef óskað eftir því að við komumst að lokaniðurstöðu á næstu dögum.“

Bræðurnir Vilhjálmur Bretaprins og Harry gáfu út sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir hafna fréttum af því í gær að Vilhjálmur væri hættur að styðja bróður sinn og þá ákvörðun sem hann hefur tekið.