Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði í gær tíma til kominn að Bandaríkin viðurkenndu yfirráð Ísraelsríkis yfir Gólanhæðum. „Sem hafa mikið mikilvægi í hernaðar- og öryggismálum fyrir Ísrael og stöðugleika á svæðinu,“ sagði forsetinn í tísti.

Þetta er í annað skipti sem hann gengur gegn alþjóðlegum samþykktum um Ísrael. Bandaríkin viðurkenndu Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels, líkt og Ísraelar vilja sjálfir meina að sé raunin.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hafnaði þeirri viðurkenningu en flest ríki heims líta á Tel Avív sem höfuðborg Ísraels þar sem Palestínumenn og Ísraelar ákváðu árið 1993 að Jerúsalem yrði viðfangsefni framtíðarviðræðna. Þær viðræður hafa ekki enn farið fram en báðar þjóðir líta á borgina sem höfuðborg.

Gólanhæðir eru í sams konar stöðu. Ísraelar tóku hæðirnar af Sýrlendingum fyrst árið 1967 og hafa síðan haldið þeim samfellt frá árinu 1981 þegar Gólanhæðir voru innlimaðar. Alþjóðasamfélagið hefur aldrei samþykkt þessa innlimun.

Þrír bandarískir öldungadeildarþingmenn lögðu fram frumvarp í síðasta mánuði um að Bandaríkin viðurkenndu yfirráð Ísraels yfir Gólanhæðum. Það hefur enn ekki verið tekið til atkvæðagreiðslu.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var staddur í Jerúsalem þegar Trump ýtti á „Send“ á Twitter. Hann neitaði að svara spurningum um yfirlýsinguna á blaðamannafundi.

Netanjahú glaður

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, er ánægður með yfirlýsingu Trumps. „Á meðan Íran reynir að beita Sýrlandi til þess að gjöreyða Ísrael viðurkennir hugrakkur Trump forseti yfirráð Ísraels yfir Gólanhæðum. Þakka þér, Trump forseti!“ tísti Ísraelinn.

Leiða má líkur að því að ákvörðun Trumps sé kærkomin fyrir Netanjahú sem gengur nú í gegnum afar erfiða kosningabaráttu. Hann á von á ákæru fyrir spillingarmál og flokkur hans mælist með minna fylgi en helsti keppinauturinn.

Samkvæmt stjórnmálaskýranda bandaríska miðilsins Axios er ákvörðun Trumps afar þýðingarmikil og gæti verið fyrirboði um stefnubreytingu hjá Bandaríkjunum er varðar fleiri hernumin svæði, til að mynda Krímskaga sem Rússar hafa hertekið en alþjóðasamfélagið álítur hluta af Úkraínu.

Breyting á afstöðu Bandaríkjanna til Krímskaga gæti glatt Vladímír Pútín Rússlandsforseta, en gagnrýnendur Trumps halda ítrekað fram að hann sé of náinn Pútín. Það mun hins vegar ekki gleðja Pútín að Trump viðurkenni yfirráð Ísraela yfir Gólanhæðum enda eru Rússar helstu bandamenn ríkisstjórnar Bashars al-Assad í Sýrlandi.

Mikilvægi Gólanhæða

Gólanhæðir eru um 400 ferkílómetrar, staðsettar um sextíu kílómetra suðvestur af sýrlensku höfuðborginni Damaskus. Eftir átök ríkjanna á síðustu öld hernámu Ísraelar svæðið en aldrei var samið um formlegan frið á milli ríkjanna. Þau eru því tæknilega séð enn í stríði.

Hægt er að sjá beint niður til Ísraels sem og Damaskus og annarra byggða í suðurhluta Sýrlands ofan af Gólanhæðum. Með því að halda Gólanhæðum geta Ísraelar því fylgst með aðgerðum sýrlenska hersins á svæðinu úr lofti. Þá eru hæðirnar einnig landfræðilegt skjól fyrir árásum eða jafnvel til þess að gera stórskotaárásir, líkt og Sýrlendingar gerðu frá 1948 til 1967 eins og kom fram í umfjöllun BBC.

En Gólanhæðir eru ekki bara mikilvægar í hernaðarlegum skilningi. Landið hentar vel til landbúnaðar, sér Ísraelum fyrir vatni og þar er meira að segja eina skíðasvæði Ísraels.

Sýrlendingar hafa ítrekað farið fram á að Ísraelar láti Gólanhæðir af hendi ef samið verður um frið á milli ríkjanna. Þeir hafa reyndar krafist þess að landamærin verði eins og þau voru fyrir árið 1967. Á það geta Ísraelar ekki fallist, þótt Ehud Barak forsætisráðherra hafi sagst tilbúinn að láta stærstan hluta Gólanhæða af hendi árið 1999, enda myndu Ísraelar þá tapa Galíleuvatni sem sér þeim fyrir miklum hluta drykkjarvatns ríkisins.