Hermann Björnsson forstjóri Sjóvár hefur sent frá sér yfirlýsingu til birtingar vegna úttektar í helgarblaði Fréttablaðsins um flugslys í Barkárdal árið 2015. Grant Wagstaff, 56 ára gamall fjölskyldufaðir frá Kanada, lést þegar flugvél í eigu Arngríms Jóhannssonar brotlenti. Sarah Wagstaff, dóttir Grants telur illa farið með fjölskylduna.

Í ítarlegri umfjöllun um slysið er sagan rakin frá sjónarhóli fjölskyldunnar. Á síðasta ári felldi lögreglan niður sakamálarannsókn á hendur Arngrími vegna flugslyssins og fjölskyldan fær engar bætur vegna fráfalls Grants.

„Þetta tryggingarmál er hreinlega svo gróft. Við fáum ekkert sem viðurkenningu á þeim sársauka og þjáningu sem við erum að ganga í gegn um,“ segir Sarah meðal annars. 

Flugvélin var tryggð hjá Sjóvá og sendi Hermann Björnsson, forstjóri félagsins, í dag Fréttablaðinu yfirlýsingu sem birt er í blaðinu á morgun. 

„Í þessu tilfelli er um að ræða viðkvæmt og flókið mál sem því miður þarf að láta reyna á fyrir dómstólum. Þetta er ekki óskastaða fyrir neinn og ekki léttvæg ákvörðun þar sem margir eiga um sárt að binda vegna slyssins. Sjóvá hefur samúð með öllum hlutaðeigandi í þessu hörmulega slysi en mun ekki tjá sig efnislega nánar um málið í fjölmiðlum,“ segir meðal annars í yfirlýsingu forstjóra Sjóvár.

Meira í helgarblaði Fréttablaðsins.