Sindri Þór Stefánsson, fanginn sem strauk úr fangelsinu að Sogni og flúði land aðfaranótt þriðjudags, fullyrðir að hafa verið haldið í fangelsi án dóms og laga og segist ætla að sanna það. Sindri hefur sent Fréttablaðinu yfirlýsingu þar sem hann útskýrir sína hlið málsins og segist ætla að koma heim mjög fljótlega.

Sindri vísar til þess að gæsluvarðhaldsúrskurður yfir honum hafi ekki verið í gildi þegar hann lagði á flótta frá Sogni. Hann var leiddur fyrir dómara síðastliðinn þriðjudag, daginn sem úrskurðurinn féll úr gildi, en dómari tók sér sólarhrings frest til að ákveða sig. Sindri segist í kjölfarið hafa verið upplýstur um að í raun væri hann frjáls ferða sinna, en að hann yrði handtekinn ef hann yfirgæfi fangelsið án skýringa.

„[…] en undir þeirri hótun að lögreglan myndi handtaka mig ef ég yfirgæfi fangelsið án skýringa. Ég var neyddur til að undirrita pappír sem stóð á að ég væri frjáls ferða minna en ef ég færi mundi ég gista í fangaklefa þar til framlenging á gæsluvarðhaldi væri samþykkt,“ segir Sindri, sem sætir haldi vegna gruns um aðild að þjófnaði á um 600 tölvum úr þremur gagnaverum í Reykjanesbæ.

„Ég mundi aldrei reyna að flýja fangelsi ef ég væri löglega sviptur frelsi mínu af ákvörðun dómara, það er staðreynd,“ bætir hann við.

Þá segist hann hafa verið í gæsluvarðhaldi í tvo og hálfan mánuð að ósekju og án allra sönnunargagna, og ætlar að kæra málið til Mannréttindadómstóls Evrópu. „Mér hefur ekki verið birt eitt einasta sönnunargagn og mér var ógnað og hótað lengri einangrun meðan einangrun átti sér stað. Mér var margoft sagt að ég fengi að ganga út ef ég myndi staðsetja svokallað þýfi sem ég er grunaður um að hafa stolið. Ég var látinn dúsa í einangrun, sem refsing, því þeir fundu ekki þetta þýfi. Án sönnunar.“

Viðurkennir að hafa tekið ranga ákvörðun

Sindri tekur fram að hann harmi það að hafa valdið ástvinum sínum hugarangri og viðurkennir að það hafi verið röng ákvörðun að flýja. Hvað sem því líður þurfi hann og muni takast á við þá stöðu sem hann sé í.

„Unnið er að því að semja við lögregluna á Íslandi um að ég fái að koma heim án þess að vera handtekinn erlendis. Einnig að þetta skjal fái að koma upp á yfirborðið sem sýnir og styður það sem ég segi um að ég hafi verið frjáls ferða minna. Ég get verið á flótta eins lengi og ég vil, ég er kominn í samband við hóp fólks sem gefur mér þak yfir höfuðið, farartæki, þess vegna fölsuð skilríki ef ég vil og peninga til að lifa. Það væri ekkert mál ef ég mundi vilja það, en ég vil heldur og ætla að takast á við þetta heima á Íslandi svo ég kem fljótlega.“

Keypti íbúð á Spáni

Líkt og Sindri bendir á var enginn gæsluvarðhaldsúrskurður í gildi á þeirri stundu sem hann steig upp í leigubíl fyrir utan fangelsið á Sogni aðfaranótt þriðjudagsins 17. apríl og hélt til Keflavíkur. Úrskurðurinn féll úr gildi klukkan 16 síðastliðinn mánudag, en þá var Sindri færður fyrir dómara að nýju vegna kröfu um framlengingu úrskurðarins. Dómari ákvað að taka sér sólarhring til að taka afstöðu til kröfunnar.

Sindra mun þá hafa staðið til boða að skrifa undir plagg þess efnis að hann sætti sig við að bíða á Sogni eftir úrskurði en þurfa ella að bíða úrskurðar í vörslum lögreglu í fangaklefa á Hverfisgötu.

Sindri skrifaði undir plaggið, hélt svo austur að Sogni með fangavörðum. Hann borðaði kvöldverð og pantaði svo flug til Svíþjóðar og hringdi á leigubíl. Nokkrum klukkustundum síðar kvað dómari upp úrskurð um framhald gæsluvarðhalds. Sindri Þór var þó ekki leiddur fyrir dómara til að hlýða á úrskurðarorð enda á leið til Svíþjóðar með forsætisráðherra.

Meðal lögmanna sem Fréttablaðið hefur rætt við eru skiptar skoðanir um þá lagalegu stöðu sem uppi er meðan dómari tekur sér frest til að kveða upp nýjan úrskurð eftir að eldri úrskurður fellur úr gildi. Sumir þeirra halda því fram að þegar dómari lýsir því yfir að hann muni taka sér 24 stundir til að taka afstöðu til gæsluvarðhaldskröfu, þá felist sjálfkrafa í því framlenging gæsluvarðhalds. Aðrir halda því fram að fangelsisyfirvöld geti ekki haft mann hjá sér nema tímasettur úrskurður liggi fyrir. Verði rof þar á milli þurfi lögregla að geyma mann á lögreglustöð enda hafi maðurinn þá stöðu handtekins manns. Þeirri framkvæmd hafi þó verið fylgt að vista menn frekar í fangelsum en á lögreglustöð enda vistin mun ömurlegri í fangaklefa á lögreglustöð.

Ef síðarnefnda túlkunin er rétt hafði Sindri í raun stöðu handtekins manns enda hafði dómari ekki tekið afstöðu til þess hvort hann skyldi áfram sviptur frelsi en Sindri mun hafa gert eins konar heiðursmannasamkomulag við yfirvöld um að vera á Sogni yfir nóttina frekar en gista fangageymslur lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu.

Víða er nú leitað bæði að Sindra og týndu tölvunum. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafði Sindri Þór keypt íbúð á Spáni og hafði, skömmu áður en hann var handtekinn, selt búslóð sína og verið að flytjast búferlum til Spánar, þangað sem vinir hans og ætlaðir samverkamenn hafa flutt á undanförnum misserum. Í gæsluvarðhaldsúrskurði þeim, sem rann út síðastliðinn mánudag, kemur fram að einn ætlaðra samverkamanna Sindra hafi staðfest þessi áform hans í yfirheyrslu hjá lögreglu.

Sjá einnig: Leikur grunur á að Sindri sé á Spáni

Þá mun lögregla einnig hafa kannað ítarlega hnit sem gefin eru upp á vefsíðu sem Sindri er skráður fyrir, 55.is, en þau gefa upp staðsetningar á og rétt fyrir utan Akureyri. Heimildir herma að hnitin hafi bent á felustað fíkniefna en gætu þó allt eins bent á felustað þýfis eða jafnvel vísbendingar í ratleik sem enginn vissi að væri í gangi. Ekki liggur fyrir hvort vísbendingar þessar hafi gagnast lögreglu við leitina að Sindra. Vert er að taka fram að ekki hefur verið hreyfing á vefsíðunni síðan síðla árs 2017.

Yfirlýsingu Sindra í heild má lesa hér fyrir neðan:

Það eru tvær hliðar á öllum málum og það á við sérstaklega hér. Ég veit það var ekki rétt hjá mér að flýja land eins og ég gerði, og ég get ekki tekið það til baka þótt ég vildi. Af hverju gerði ég þetta?

Ég mundi aldrei reyna að flýja fangelsi ef ég væri löglega sviptur frelsi mínu af ákvörðun dómara, það er staðreynd. Þann 16. apríl sl. kl. 15.00 fór ég fyrir framan dómara þar sem ákæruvaldið fór fram á áframhaldandi gæsluvarðhald í 10 daga í viðbót og dómarinn tók þá ákvörðun hugsa sig um þar til 17. apríl sl. kl. 09.30, daginn eftir. Dómari setti ekki fram tímabundið gæsluvarðhald meðan umhugsunarfrestur stendur yfir. En þennan sama dag 16. apríl, eða einni klukkustund eftir fyrirtökuna, klukkan 16.00 rann út gæsluvarðhaldið og þar með var ég frjáls. Ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en síðar um daginn þegar starfsfólk fangelsisins á Sogni kallaði mig til sín á fund. Þar var ég upplýstur um það að ég væri frjáls maður þar sem gæsluvarðhaldið væri útrunnið en undir þeirri hótun að lögreglan myndi handtaka mig ef ég yfirgæfi fangelsið án skýringa. Ég var neyddur til að undirrita pappír sem á stóð að ég væri frjáls ferða minna en ef ég færi mundi ég gista í fangaklefa þar til framlenging á gæsluvarðhaldi væri samþykkt.

Fangelsismálastofnun er með þetta skjal undir höndum og er unnið að því að koma því til lögmanns míns.

Ég einfaldlega neita að vera í fangelsi af mínum eigin og frjálsum vilja, sér í lagi þegar lögreglan hótar mér handtöku án skýringa.

Ég er ekki að reyna að segja að þetta hafi verið rétt ákvörðun hjá mér að fara, og ég sé mjög mikið eftir því, þar sem fjölskylda mín hefur þurft að þjást vegna mikils áreitis frá fjölmiðlum og almenningi. Ég bjóst ekki við því að fá alþjóðlega handtökuskipun því ég var frjáls ferða minna og taldi því útilokað að vera stimplaður strokufangi. Ég hefði aldrei gert þetta nema ég teldi mig vera frjálsan ferða minna.

Þar að auki hef ég verið í gæsluvarðhaldi í tvo og hálfan mánuð að ósekju, án sönnunargagna, heldur einungis vegna gruns lögreglu. Það er það sem ég er reiðastur yfir. Mér hefur ekki verið birt eitt einasta sönnunargagn og mér var ógnað og hótað lengri einangrun meðan einangrun átti sér stað. Mér var margoft sagt að ég fengi að ganga út ef ég myndi staðsetja svokallað þýfi sem ég er grunaður um að hafa stolið. Ég var látinn dúsa í einangrun, sem refsing, því þeir fundu ekki þetta þýfi. Án sönnunar. Ég og lögmaður minn höfum þegar rætt um og ég vil að þetta verði kært til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Hvað svo sem því líður, þá þarf ég að takast á við þessa stöðu sem ég er í. Ég hef engan áhuga á því að lifa í ótta og felum og valda fjölskyldu minni meira hugarangri. Unnið er að því að semja við lögregluna á Íslandi um að ég fái að koma heim án þess að vera handtekinn erlendis. Einnig að þetta skjal fái að koma upp á yfirborðið sem sýnir og styður það sem ég segi um að ég hafi verið frjáls ferða minna. Ég get verið á flótta eins lengi og ég vil, ég er kominn í samband við hóp fólks sem gefur mér þak yfir höfuðið, farartæki, þess vegna fölsuð skilríki ef ég vil og peninga til að lifa. Það væri ekkert mál ef ég mundi vilja það, en ég vil heldur og ætla að takast á við þetta heima á Íslandi svo ég kem fljótlega