Íris Dögg Ómarsdóttir, hótelstjóri hjá Kvosin Downtown Hotel, segir í yfirlýsingu að upptökur séu ekki leyfðar á staðnum. Hún harmar að nafn staðarins hafi verið dregið inn í fréttaflutning af máli þingmannanna.

Klaustur bar er staðurinn þar sem tekið var upp samtal þingmanna og birt hefur verið í fréttum í gærkvöldi og í morgun. 

Yfirlýsing frá Klaustri bar:

„Vegna fréttafluttnings af upptökum á samtali alþingismanna á Klaustur bar þann 20. Nóvember vilja forsvarsmenn staðarins taka það skýrt fram að starfsmenn Klausturs áttu þar hvergi hlut í máli. Einnig skal það tekið fram að engar hljóðupptökur eru á myndavélum staðarins. Klaustur Bar harmar það að nafn staðarins hafi verið dregið inn í fréttaflutning af þessu máli enda sé það almennt stefnan að fólki sé frjálst að ræða saman að vild þar inni burtséð frá persónulegum skoðunum staðarhaldara, starfsmanna eða annarra gesta, upptökur af hverskyns toga séu ekki samþykktar af staðnum.“