Fyrr­verandi yfir­lög­reglu­þjónn hjá lög­reglunni á Vestur­landi greiddi í nóvember í fyrra 100 þúsund króna sekt vegna vændis­kaupa. Hann baðst lausnar í byrjun júlí í fyrra en það var um sama leyti og rann­sókn fór fram á hendur honum. Það er frétta­stofa RÚV sem greinir frá. 

Þar segir að ríkis­sak­sóknari hafi upp­lýst lög­reglu­stjórann á Vestur­landi í byrjun júní um að þá­verandi yfir­lög­reglu­þjónn væri til rann­sóknar vegna ætlaðs brots gegn al­mennum hegningar­lögum. 

Maðurinn var á mánudag dæmdur til greiðslu annarrar sektar, einnig að fjárhæð 100 þúsund króna, eftir að hafa lent í slag við lög­reglu­mann í Vest­manna­eyjum. Í dómnum kemur fram að hann hafi í nóvember greitt aðra 100 þúsund króna sekt vegna brots gegn kyn­ferðis­brota­kafla al­mennra hegningar­laga. 

Dóminn má lesa hér.

RÚV hefur eftir Sig­ríði Frið­jóns­dóttur ríkis­sak­sóknara að lög­reglu­stjórinn hafi verið upp­lýstur um að yfir­maðurinn sem um ræðir sætti rann­sókn lög­reglu. Úlfar Lúð­víks­son, lög­reglu­stjórinn á Vestur­landi, segir í skrif­legu svari til frétta­stofu RÚV að maðurinn hafi beðist lausnar 1. júlí. Hann hafi lokið störfum sama dag en lítið fór fyrir starfs­lokum hans.