Jóni Magnúsi Kristjáns­syni, for­stöðu­manni líst vel á á­taks­hóp um mál­efni bráða­mót­töku Land­spítalans. Í á­taks­hópnum sitja fjórir ein­staklingar, tveir full­trúar Land­spítala og tveir full­trúar Heil­brigðis­ráðu­neytisins. Hópurinn á að skila niður­stöðum sínum innan fjögurra vikna.

Jón Magnús segir í sam­tali við Frétta­blaðið að hann telji þröngan tíma­ramma vera einn af kostum á­taks­hópsins. „Ég held að það sé einn af kostunum við þetta. Að þetta sé ekki eitt­hvað starf sem að dregst í marga mánuði.“

Á­nægður með skipulagið

Í sam­tali við Frétta­blaðið í síðustu viku sagðist Jón vona að sem flestir full­trúar Land­spítalans fengju að koma að á­taks­hópnum. Spurður að því hvort að nóg sé að hafa tvo full­trúa frá Land­spítalnum segir hann að honum líst vel á skipu­ritið sem Stjórnar­ráðið hefur birt og sýnir hvernig vinnu hópsins verði háttað.

Í skipuritinu er gert ráð fyrir að Land­spítalinn skipi í þrjá vinnu­hópa sem starfi undir á­taks­hópnum. Hann segir það fyrir­komu­lag já­kvætt. „Þannig koma full­trúar spítalans mjög virkt að þessu.“ Vinnuhóparnir munu skila sínu á­liti til sjálfs á­taks­hópsins.

Jón segir ekki enn búið að skipa í vinnu­hópa Land­spítalans en reiknar með að það verði gert á morgun og segir að fyrsti fundur verði á morgun. Hann vonar að full­trúar sem flestra stétta innan spítalans fái sæti í vinnu­hópunum, en það kemur í ljós á morgun.

Allir búnir að gera sér grein fyrir al­var­leikanum

Að­spurður segir Jón að hann sé von­góður um að niður­stöður vinnu­hópsins muni skila góðum árangri.

„Þetta er skipað af ráð­herra og á­taks­hópur skipaður af ráð­herra þá er eg von­góður um það. Ég held það séu allir búnir að gera sér grein fyrir al­var­leika málsins og brýna þörf á úr­bótum. Þess vegna hef ég trú á því að brugðist verði við og farið að ráð­leggingum þess hóps.“

Full­trúar heil­brigðis­ráðu­neytisins í á­taks­hópnum eru Vil­borg Hauks­dóttir, fyrr­verandi skrif­stofu­stjóri í heil­brigðis­ráðu­neytinu auk sér­fræðings í gagna­greiningu. Full­trúar Land­spítalans eru Jón Magnús og Anna Sig­rún Baldurs­dóttir, að­stoðar­maður for­stjóra Land­spítalans.