Björn Hjálmarsson, yfirlæknir á barna- og unglingageðdeild Landspítala, segist hafa farið með rangt mál í Stundinni um meðferðir fyrir trans börn og biðst velvirðingar á orðum sem hann lét falla í fréttinni.

Árétting frá Birni birtist á vef Landspítalans í kvöld.

Fréttin sem um ræðir birtist á vef Stundarinnar í dag með fyrirsögninni Áralangar tilraunir á íslenskum transbörnum:„Í myrkri aktívisma og fákunnáttu“. Þar er haft eftir tölvupósti sem Björn skrifaði þar sem hann varpar fram efasemdum um meðferðarúrræði fyrir trans börn á Íslandi og sagði að vísindin væru ekki gagnreynd hefur byggð á fákunnáttu og aktívisma.

„Í Stundinni í dag er haft eftir mér að ég hafi efasemdir um vísindalegar forsendur þeirra meðferða sem Landspítali veitir transbörnum og ungmennum. Þetta er rangt og ég biðst velvirðingar á þeim orðum,“ segir Björn og tekur fram að sú þjónusta sem transteymi BUGL veitir börnum og ungmennum byggir á alþjóðlegum viðmiðum og gagnreyndum rannsóknum.

„Teymið er skipað þverfaglegum hópi sérfræðinga sem einsetur sér að veita skjólstæðingum okkar eins góða þjónustu og meðferð og nokkur kostur er á.“

Björn tekur fram að reynslan af meðferð trans barna og ungmenna spanni ekki marga áratugi og sé þess vegna mikilvægt að fylgjast grannt með alþjóðlegum rannsóknarniðurstöðum „sem og reynslu þeirra sem við viljum bera okkur saman við. Það munum við áfram gera í viðleitni okkar til að þjónusta viðkvæman hóp af þeirri virðingu og fagmennsku sem hann á skilið, í virku samtali við börnin og aðstandendur þeirra.“

„Við teljum að afsökunarbeiðni hans hljóti að vera vísir að enn betra og nánara samstarfi öllu trans fólki til heilla.“

Bjarndís Helga Tómasdóttir, starfandi formaður Samtakanna '78
Mynd: Ragnar Visage

Ummælin komu Samtökunum í opna skjöldu

Bjarndís Helga Tómasdóttir, starfandi formaður Samtakanna '78, segir að ummæli yfirlæknis BUGL hafi komið samtökunum sannarlega í opna skjöldu.

„Við þekkjum jú vel það góða starf sem fram fer hjá Trans teymi BUGL. Þar er unnið faglega og af virðingu með hag mjög viðkvæms hóp í huga,“ segir Bjarndís Helga. Hún tekur fram að samtökin séu ánægð að sjá hversu fljótt Björn hafi brugðist við.

„Við teljum að afsökunarbeiðni hans hljóti að vera vísir að enn betra og nánara samstarfi öllu trans fólki til heilla. Við þekkjum svo vel hversu mikilvægt opið og heiðarlegt samtal er þegar kemur að málefnum hinsegin fólks.“