Alls 83 prósent landsmanna eru óánægð með fyrirkomulag sölu 22,5 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka 22. mars. Þar af eru tæplega 70 prósent mjög óánægð.

Aðeins 7 prósent eru ánægð með hvernig til tókst og 3 prósent mjög ánægð. Þetta kemur fram í nýrri könnun Prósents fyrir Fréttablaðið.

Nánast enginn marktækur munur er á afstöðu fólks er kemur að kyni, aldri, búsetu, tekjum eða menntun. Allir hóparnir virðast nokkurn veginn jafn óánægðir með söluna.

Þegar litið er til stjórnmálaskoðana kemur hins vegar fram munur. Það eru stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins sem eru áberandi ánægðastir. Engu að síður aðeins 30 prósent þeirra á meðan 44 prósent eru óánægð og 26 hvorki né.

Stuðningsmenn allra annarra flokka eru afgerandi óánægðir með söluna, 78 prósent hið minnsta í þeim öllum.

Innan við 5 prósent Framsóknarmanna eru ánægð með söluna og aðeins 1 prósent stuðningsmanna Vinstri grænna. Enginn stuðningsmaður Samfylkingar, Pírata eða Sósíalista er ánægður með söluna.

Afgerandi munur er þegar spurt er hvaða leið eigi að fara til þess að rannsaka söluna. Telja mun fleiri að setja eigi á laggirnar sérstaka rannsóknarnefnd á vegum Alþingis en að Ríkisendurskoðun sjái um rannsóknina eins og ríkisstjórnin ákvað.

bankagraf

Alls telja 80 prósent setja eigi á laggirnar rannsóknarnefnd en 11 prósent eru því ósammála. Aftur eru það Sjálfstæðismenn sem skera sig úr, 38 prósent vilja slíka nefnd en 43 prósent ekki. Stuðningurinn er yfirgnæfandi hjá öðrum.

Alls segjast 46 prósent hlynnt rannsókn Ríkisendurskoðunar en 31 prósent er andvígt. Þeir sem voru ánægðir með fyrirkomulag sölunnar eru líklegri til að styðja þessa leið, 70 prósent en 42 prósent þeirra sem voru óánægð með söluna. 61 prósent Sjálfstæðismanna vill athugun Ríkisendurskoðunar en hlutfallið er á bilinu 29 til 51 prósent hjá öðrum.

Netkönnun Prósents var gerð 13. til 19. apríl. Úrtakið var 2.150 manns, 18 ára og eldri. Svarhlutfall var 50,3%

Ríkisstjórnin boðar að Bankasýslan verði lögð niður. Stjórnarandstaðan segir að þannig sé reynt að hlaupast undan ábyrgð og krafðist í gær að Alþingi kæmi saman.