Tæplega sjötíu prósent þeirra sem sóttu CPAC-ráðstefnuna í Texas vilja sjá Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, sem forsetaefni Repúblikanaflokksins.

Þetta segja niðurstöður óformlegrar skoðanakönnunar sem gerð var á ráðstefnunni, sem er sótt af íhaldsmönnum vestanhafs.

The Hill fjallar um málið, en þar segir að Trump sé sigurstranglegastur samkvæmt könnuninni, með 69 prósent atkvæða. Í öðru sæti er Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, með 24 prósent. Sá þriðji var öldungadeildarþingmaðurinn Ted Cruz með tvö prósent.

Í síðustu könnun, sem gerð var í febrúar, var Trump með 59 prósent atkvæða og DeSantis með 28 prósent.

Talið er líklegt að Donald Trump muni aftur bjóða sig fram til forseta Bandaríkjanna. Hann hefur greint frá því að hann sé þegar búinn að taka ákvörðun, en hefur ekki enn greint frá því hver sú ákvörðun er.

Sonurinn næst líklegastur sé faðirinn ekk með

Fleiri skoðanakannanir voru gerðar á CPAC-ráðstefnunni. Til að mynda var fólk spurt hvern það sæi sem forsetaefni flokksins myndi Trump ekki bjóða sig fram. Þar fékk DeSantis 65 prósent og Donald Trump Jr, sonur fyrrverandi forsetans, var í öðru sæti með átta prósent. Skammt á eftir var áðurnefndur Cruz með sex prósent.

Newsom og Obama líklegust hjá Demókrötum

Jafnframt var spurt út í forsetaefni Demókrataflokksins, en svo virðist sem gestir ráðstefnunnar hafi litla trú á að Joe Biden Bandaríkjaforseti verði aftur efstur á lista, né Kamala Harris varaforseti.

Helst er búist við því að ríkisstjóri Kaliforníu Gavin Newsom verði forsetaefnið, og næst líklegust þótti Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú.