Að minnsta kosti 18 manns eru látnir og 36 er enn saknað eftir að Rússar vörpuðu sprengju á verslunar­mið­stöð í Kremenchuk í Úkraínu í gær. Talið er að hátt í þúsund manns hafi verið í verslunar­mið­stöðinni þegar sprengjan féll.

Í frétt Guar­dian kemur fram að loft­varna­flautur hafi ómað áður en sprengjan féll og tölu­verður fjöldi fólks hafi náð að koma sér inn í sprengju­byrgi skammt frá. Fjöl­mörgum tókst ekki að forða sér í tæka tíð og voru innan­dyra þegar byggingin var sprengd.

„Ég yfir­gaf bygginguna tveimur mínútum áður en sprengjan féll,“ segir Yev­henia Semyonova, 38 ára starfs­maður í í­þrótta­vöru­verslun í verslunar­mið­stöðinni, í sam­tali við The Guar­dian.

„Kollegar mínir sem eru að vinna í stærri verslunum, til dæmis mat­vöru­versluninni hér, þurftu að bíða eftir að við­skipta­vinir höfðu yfir­gefið búðina áður en þeir gátu farið. Við vorum heppin því það voru engir við­skipta­vinir í búðinni okkar þegar loft­varna­flauturnar ómuðu,“ bætir hún við.

Frá vettvangi í gær
Mynd/Getty Images