Sigur­borg Daða­dóttir, yfir­dýra­læknir, segist ekkert geta tjáð sig um mál bóndans á Vestur­landi sem MAST hefur kært fyrir al­var­lega dýra­van­rækslu. Alls voru 30 naut, 200 kindur og fimm hænur af­lífuð eða drápust vegna skorts á fóðri eða brynningu á bænum. Bóndanum hefur verið bannað allt dýra­hald þar til dómur fellur í málinu.

„Ég get ekki sagt meira því þetta er núna til rann­sóknar hjá lög­reglu og ég get ekki tjáð mig um mál sem eru til rann­sóknar þar,“ segir Sigur­borg og vísar á lög­regluna því það gæti mögu­lega skemmt rann­sóknar­hags­muni ef hún tjáir sig frekar um málið.

Í frétta­til­kynningu MAST í vikunni kom fram að síðasta reglu­bundna skoðun fór fram vorið 2021 á bænum og að þrisvar hafi verið farið í eftir­lits­skoðun á síðustu sex árum. Í þessum heimsóknum hefur ekki komið upp alvarlegt frávik við fóðrun eða aðbúnað.

Þetta hefur gerst nokkuð hratt?

„Þetta kemur upp núna þannig þetta kemur skyndi­lega upp,“ segir Sigur­borg.