Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir, segist ekkert geta tjáð sig um mál bóndans á Vesturlandi sem MAST hefur kært fyrir alvarlega dýravanrækslu. Alls voru 30 naut, 200 kindur og fimm hænur aflífuð eða drápust vegna skorts á fóðri eða brynningu á bænum. Bóndanum hefur verið bannað allt dýrahald þar til dómur fellur í málinu.
„Ég get ekki sagt meira því þetta er núna til rannsóknar hjá lögreglu og ég get ekki tjáð mig um mál sem eru til rannsóknar þar,“ segir Sigurborg og vísar á lögregluna því það gæti mögulega skemmt rannsóknarhagsmuni ef hún tjáir sig frekar um málið.
Í fréttatilkynningu MAST í vikunni kom fram að síðasta reglubundna skoðun fór fram vorið 2021 á bænum og að þrisvar hafi verið farið í eftirlitsskoðun á síðustu sex árum. Í þessum heimsóknum hefur ekki komið upp alvarlegt frávik við fóðrun eða aðbúnað.
Þetta hefur gerst nokkuð hratt?
„Þetta kemur upp núna þannig þetta kemur skyndilega upp,“ segir Sigurborg.