Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu staðfesti rétt í þessu dóm réttarins í Landsréttarmálinu sem kveðinn var upp 12. mars í fyrra. Dómur yfirdeildarinnar var kveðinn upp rétt í þessu en hann var einróma um niðurstöðuna.

Dómurinn verður aðgengilegur á vef Mannréttindadómstólsins síðar í dag.

Dómurinn í mars reiðarslag fyrir dómsmálaráðherra

Það var niðurstaða dómsins sem kveðinn var upp í mars í fyrra, að með því að hafa ekki skipað dómara við Landsrétt samræmi við landslög, hafi íslenska ríkið brotið í bága við ákvæði Mannréttindasáttmálans um réttláta málsmeðferð. Brotin áttu sér stað þegar skipað var í Landsrétt í fyrsta sinn, en að mati dómsins gerðist þáverandi dómsmálaráðherra brotlegur við reglurnar sem um skipunina giltu með því að hafa tekið fjögur dómaraefni af lista hæfnisnefndarinnar og sett önnur dómaraefni inn í staðinn án þess að leggja sjálfstætt mat á eða afla frekari gagna um dómarareynslu þeirra sem fjarlægð voru. Brot ráðherrans höfðu að mati dómsins grundvallaráhrif á allt skipunarferlið og á valið á þeim dómurum sem skipaðir voru til setu í hinu nýja millidómstigi.

Að mati dómsins leiddu brot á reglum sem giltu um skipun dómarana ekki eingöngu til þess að málsmeðferðin hafi verið gölluð í heild sinni heldur hafi ráðherra sýnt reglunum sem virða bar algert skeytingarleysi. Dómurinn vísaði um þetta til niðurstöðu Hæstaréttar í bótamáli tveggja umsækjenda um stöðu dómara við réttinn, en í því máli taldi Hæstiréttur að ráðherra hafi ekki uppfyllt rannsóknarreglu stjórnsýslulaga um reynslu þeirra fjögurra umsækjenda sem færðust neðar á listann til samanburðar við þá fimmtán efstu sem voru á lista ráðherra, þrátt fyrir að hafa fengið ráðgjöf sérfræðinga um nauðsyn slíkrar rannsóknar.

MDE vísaði einnig til málsmeðferðarinnar á Alþingi í niðurstöðu sinni í fyrra. Í dóminum var vísað til þeirra reglna sem settar höfðu verið um aðkomu Alþingis að skipun dómara á hinu nýja millidómsstigi og var sérstaklega ætlað að takmarka aðkomu framkvæmdarvaldsins að skipun dómara við hinn nýja dóm.

Löggjafinn hafði ákveðið að þegar skipað yrði í dóminn í fyrsta skipti skyldi Alþingi veitt sérstakt hlutverk. Hæstiréttur túlkaði löggjöfina þannig að Alþingi hefði átt að greiða atkvæði um hvert og eitt hinna fimmtán dómaraefna en ekki eingöngu um listann í heild. MDE taldi þá málsmeðferð sem kveðið er á um í reglunum hafa verið ætlaða til þess að lágmarka hættu á því að flokkshagsmunir hefðu ótilhlýðileg áhrif á málsmeðferð við mat á umsækjendum og að lokum staðfestingu af hálfu þingsins. Alþingi hefði brotið eigin löggjöf með því að greiða ekki atkvæði um hvert og eitt dómaraefnanna. Þetta hafi einnig falið í sér alvarlegan ágalla á málsmeðferðinni, með tilheyrandi skaða fyrir trúverðugleika alls ferilsins.

Niðurstaða dómsins var sú að ferlið við skipunina hafi í heild sinni brotið í bága við kjarna þeirrar grundvallarreglu réttarríkisins að skipan dómstóla sé ákveðin með lögum, og hafi auk þess verið til þess fallið að skaða það traust sem dómstólar í lýðræðislegu samfélagi þurfa að njóta meðal borgaranna. Að mati dómsins myndi önnur niðurstaða jafngilda því að ákvæði sáttmálans um réttláta málsmeðferð veitti enga eða innihaldslausa vernd.

Stóru orðin ekki spöruð í séráliti

Tveir dómarar skiluðu séráliti þegar dómur féll í málinu í fyrra og þar voru stóru orðin heldur ekki spöruð. „Flugstjórinn í málinu gerði mistök við stjórn flugvélarinnar en það sé ekki næg ástæða til að skjóta hana niður,“ segir í sératkvæði dómarana sem sögðu að með niðurstöðu meirihlutans væri verið að opna öskju Pandóru. Þeir töldu meirihlutann fara á svig við nálægðarreglu Evrópuréttarins með því að hundsa mat Hæstaréttar á innlendum lögum. Þó annmarkar hafi verið á dómaravalinu hafi landslögum verið fylgt.

Frá blaðamannafundi Sigríðar Andersen þegar hún steig til hliðar sem ráðherra.
Fréttablaðið/Anton Brink

Sigríður steig til hliðar

Dómurinn olli gríðarlegum pólitískum titringi á Íslandi um leið og niðurstaðan var kunngerð. Í hádegisfréttum sama dag sagðist dómsmálaráðherra ekki sjá ástæðu til annars að sitja áfram, hún nyti trausts í ríkisstjórninni. Hún dvaldi við minnihlutaálitið og ítrekaði að fundið hefði verið að allri málsmeðferðinni, ekki aðeins sínum þætti heldur einnig málsmeðferðinni á Alþingi. Ljóst varð þó að þegar líða tók á daginn traust til Sigríðar í stjórnarflokkunum var ekki eins óbrigðult og hún hafði sjálf talið. Upp úr hádegi næsta dags boðaði Sigríður Á Andersen til blaðamannafunda þar sem hún tilkynnti að hún myndi stíga tímabundið til hliðar.

Endurskoðunar hjá yfirdeild óskað

Tæpum mánuði eftir að dómur var kveðinn upp í Strassborg tilkynnti nýr dómsmálaráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, að óskað yrði eftir endurskoðun hjá yfirdeild réttarins.

„Við höfum síðustu vikur skoðað mis­munandi fleti þessa mikil­væga máls. Eftir þá skoðun tel ég rétt að óska endur­skoðunar hjá yfir­deild Mann­réttinda­dóm­stólsins. Ég tel brýnt að fara þessa leið í ljósi þess hve mikil­væga hags­muni málið snertir hér á landi,” sagði Þór­dís Kol­brún um ákvörðunina.

Að hausti hafði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir verið skipuð ráðherra dómsmála og MDE ákveðið að verða við beiðni íslenskra stjórnvalda um endurskoðun hjá yfirdeild réttarins. Málið fengi flýtimeðferð. Kunnugir sögðu þó að flýtimeðferð gæti þýtt eitt til tvö ár í bið til viðbótar.

Uppúr áramótum fór undirbúningur fyrir málflutning fyrir yfirdeild á fullt.

Munnlegur málflutningur í Strassborg var settur á dagskrá réttarins 5. febrúar og breski lögmaðurinn Timothy Otty var ráðinn til að flytja mál íslenska ríkisins með Ríkislögmanni.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var ekki eining í ríkisstjórninni um þá ráðstöfun að ráða Otty til að flytja Landsréttarmálið. Frumkvæðið hafi komið frá dómsmálaráðuneytinu en efasemdum hafi verið lýst um ákvörðunina bæði af hálfu embættis ríkislögmanns og forsætisráðuneytisins. Tæpum tveimur vikum fyrir málflutninginn í Strassborg óskaði Einar Karl Hallvarðsson, ríkislögmaður, eftir ótímabundnu veikindaleyfi og var hann frá í þrjá mánuði og tók ekki þátt í málflutningnum ytra.

Sigríður Andersen fyrrverandi dómsmálaráðherra óskaði hins vegar eftir því að fá svokallaða aðild þriðja aðila að málinu, en yfirlýsing frá henni fygldi málsgögnum ríkisins sem lögð voru fram í málinu. Meðal málsgagna fylgdi einnig yfirlýsing frá Brynjari Níelssyni, þingmanni og eiginmanni Arnfríðar.

Málið sprottið af pólitískum hrossakaupum

Brynjar taldi að sér vegið í málatilbúnaði Vilhjálms H Vilhjálmssonar, en hann hélt því meðal annars fram í grein sem hann birti í Fréttablaðinu að málið væri sprottið af pólitískum hrossakaupum milli Sigríðar Á Andersen og Brynjars Níelssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins og eiginmanns dómarans Arnfríðar. Brynjar hafi hleypt Sigríði fram fyrir sig á framboðslista og komið henni þannig í mögulega ráðherrastöðu. Hún hafi í staðinn skipað eiginkonu hans í Landsrétt.

Fjöldi Íslendinga voru viðstaddir málflutninginn í Strassborg, þar á meðal embættismenn, dómarar og alþingismenn. Sautján dómarar Mannréttindadómstólsins sitja í yfirdeildinni og beindu dómararnir mörgum spurningum að báðum málsaðilum, meðal annars um hin meintu pólitísku hrossakaup.

Fjöldi íslendinga fyldust með málflutningnum í Strassborg, þann 5. febrúar á þessu ári.