Húsráðandi í Hlíðahverfinu vaknaði upp við vondan draum á heimili sínu laust eftir miðnætti í nótt, þegar hann mætti innbrotsþjófi sem reyndist vopnaður eggvopni. Þjófurinn otaði eggvopninu að húsráðanda og kom til átaka. Húsráðandi náði taki á þjófnum og kallaði til lögreglu, sem mætti á vettvang á öðrum tímanum í nótt. Húsráðandi fékk skurð á hendi og var fluttur með sjúkrabíl til aðhlynningar á bráðamóttöku. Þjófurinn var sömuleiðis fluttur á bráðamóttöku til nánari skoðunar. Að því loknu var hann fluttur í fangageymslu lögreglu, en málið er í rannsókn. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Þá var tilkynnt um þjófnað á spritti úr verslun í Breiðholti. Lögregla mætti á vettvang og ræddi við manninn, en hann var sagður vera ofurölvi. Þegar leið á samtalið versnaði ástand mannsins og voru sjúkraflutningamenn kallaðir á staðinn til að meta ástand mannsins. Að því loknu var maðurinn handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu sökum ástands.
Lögregla fékk tilkynningu um líkamsárás á Breiðholtsbraut laust fyrir miðnætti í gærkvöldi. Ökumaður, sem hafði boðið tveimur mönnum far, hafði ítrekað verið kýldur í andlit og kveikjuláslyklar bifreiðarinnar teknir. Árásarmennirnir tveir voru handteknir og fluttir í fangageymslu lögreglu.
Á áttunda tímanum í gærkvöldi var tilkynnt um umferðaróhapp á Reykjanesbraut við Stekkjarbakka í Breiðholti. Þegar lögregla mætti á staðinn reyndist bifreið hafa verið ekið í hlið annarar bifreiðar og festust bifreiðarnar saman um tíma. Annar ökumaðurinn var fluttur með sjúkrabíl til aðhlynningar á bráðamóttöku en hinn var handtekinn á staðnum. Hann er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Sá gistir nú fangageymslu lögreglu og er málið í rannsókn.
Þá var tilkynnt um stuld á bíl í miðborginni um fimm-leytið í gærdag, en ökumaður bílsins hafði skilið eftir bifreiðina í gangi á meðan hann fór með vörur í hús. Eftir nokkra leit fannst bifreiðin í nótt, tæplega tólf klukkutímum síðar.
Lögregla stöðvaði fjóra ökumenn við akstur í gær, en af mismunandi ástæðum þó. Einn ók yfir gatnamót gegn rauðu ljósi, annar var grunaður um hraðakstur, sá þriðji reyndist aka án ökuréttinda og sá fjórði ók gegn einstefnu. Sá er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.