Hús­ráðandi í Hlíða­hverfinu vaknaði upp við vondan draum á heimili sínu laust eftir mið­nætti í nótt, þegar hann mætti inn­brots­þjófi sem reyndist vopnaður egg­vopni. Þjófurinn otaði egg­vopninu að hús­ráðanda og kom til á­taka. Hús­ráðandi náði taki á þjófnum og kallaði til lög­reglu, sem mætti á vett­vang á öðrum tímanum í nótt. Hús­ráðandi fékk skurð á hendi og var fluttur með sjúkra­bíl til að­hlynningar á bráða­mót­töku. Þjófurinn var sömu­leiðis fluttur á bráða­mót­töku til nánari skoðunar. Að því loknu var hann fluttur í fanga­geymslu lög­reglu, en málið er í rann­sókn. Þetta kemur fram í dag­bók lög­reglu.

Þá var til­kynnt um þjófnað á spritti úr verslun í Breið­holti. Lög­regla mætti á vett­vang og ræddi við manninn, en hann var sagður vera ofur­ölvi. Þegar leið á sam­talið versnaði á­stand mannsins og voru sjúkra­flutninga­menn kallaðir á staðinn til að meta á­stand mannsins. Að því loknu var maðurinn hand­tekinn og vistaður í fanga­geymslu lög­reglu sökum á­stands.

Lög­regla fékk til­kynningu um líkams­á­rás á Breið­holts­braut laust fyrir mið­nætti í gær­kvöldi. Öku­maður, sem hafði boðið tveimur mönnum far, hafði í­trekað verið kýldur í and­lit og kveikju­láslyklar bif­reiðarinnar teknir. Árásarmennirnir tveir voru hand­teknir og fluttir í fanga­geymslu lög­reglu.

Á áttunda tímanum í gær­kvöldi var til­kynnt um um­ferðar­ó­happ á Reykja­nes­braut við Stekkjar­bakka í Breið­holti. Þegar lög­regla mætti á staðinn reyndist bif­reið hafa verið ekið í hlið annarar bif­reiðar og festust bif­reiðarnar saman um tíma. Annar öku­maðurinn var fluttur með sjúkra­bíl til að­hlynningar á bráða­mót­töku en hinn var hand­tekinn á staðnum. Hann er grunaður um akstur undir á­hrifum á­fengis og fíkni­efna. Sá gistir nú fanga­geymslu lög­reglu og er málið í rann­sókn.

Þá var til­kynnt um stuld á bíl í mið­borginni um fimm-leytið í gær­dag, en öku­maður bílsins hafði skilið eftir bif­reiðina í gangi á meðan hann fór með vörur í hús. Eftir nokkra leit fannst bif­reiðin í nótt, tæp­lega tólf klukku­tímum síðar.

Lög­regla stöðvaði fjóra öku­menn við akstur í gær, en af mis­munandi á­stæðum þó. Einn ók yfir gatna­mót gegn rauðu ljósi, annar var grunaður um hrað­akstur, sá þriðji reyndist aka án öku­réttinda og sá fjórði ók gegn ein­stefnu. Sá er grunaður um akstur undir á­hrifum fíkni­efna.