„Mér finnst ekki vera heil brú í þeim,“ segir Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins um aðgerðir Seðlabankans sem hækkar afborganir fasteignalána um tugi þúsunda á mánuði.

Á Fréttavaktinni á Hringbraut ræðir hún um nýlegar aðgerðir bankans um að hækka tvívegis stýrivexti á stuttum tíma til að „kæla“ fasteignamarkaðinn.

Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan

Verðbólgan hækkar og vextir hafa því verið hækkaðir. Hækkunin kemur mjög hart niður á þeim þurfa standa skil af afborgunum á sínum íbúðalánum.

Hækka álögur á fólk sem er ekki á fasteignamarkaði

„Í fyrsta lagi, ef þú ætlar að kæla fasteignamarkaðinn, hvernig gerir þú það? Með því að setja hærri álögur á fólks sem hreinlega bara býr í sínum húsum og eru ekkert að kaupa sér nýjar fasteignir?“, spyr Lóa eins og hún er kölluð og hefur stýrt Hagsmunasamtökum heimilanna í meira en áratug.

„Þá eru eignir greiddar á borðið og það er ekkert venjulegt fólk sem gerir það“

„Ef þeir ætluðu að kæla fasteignamarkaðinn þá væri kannski nær að til dæmis setja hærri vexti á ný lán og jafnvel hugsanlega koma í veg fyrir það að fjárfestar geti verið að sanka að sér eignum“.

Hún segir þessar vaxtahækkanir bitna á fólki sem sé ekki á fasteignamarkaði, hvorki að kaupa eða selja og sá hópur sé megnið af þjóðinni. Þeir sem séu á markaðnum séu annars konar.

Yfirbuðu með staðgreiðslu

Lóa segist hafa fundið þetta persónulega í þrjú skipti vegna leit sona sinna á íbúð núna. Yfirbjóðendur séu á markaðnum sem staðgreiði fasteignir.

„Þá eru eignir greiddar á borðið og það er ekkert venjulegt fólk sem gerir það.“

Alþingi brugðist væntingum

„Ég skil það ekki að það sé verið að berjast gegn verðbólgu, sem er alveg nóg fyrir fólk að fá inn í sitt heimilisbókhald, með því að auka byrðar fjölskyldna um tugi þúsunda í hverjum einasta mánuði“, segir Lóa sem situr í viðskipta-og efnhagsnefnd Alþingis.

Þar segist hún hafa mætt tómlæti vegna málsins og Alþingi að því leyti brugðist hennar væntingum.

Greiðslubyrði hækki um meira en hundrað þúsund

Dæmi er um að 40 milljón króna lán hafi aukið greiðslubyrði heimilis fjögurra manna fjölskyldu þannig að byrði greiðslna hafi vaxið um 80 þúsund krónur á mánuði. Lóa vísar í frétt RÚV þar sem 20 þúsund af því sé vegna verðbólgu en hitt vegna lánavaxta. Eftir síðustu stýrivaxtahækkun sé sama fjölskylda með 93 þúsund meira í greiðslur. Núna sé greiðslubyrðin svo orðin vel yfir hundrað þúsund á mánuði meira en áður hjá slíkum fasteignaeigendum.