Á átta árum hafa 2.139 kettir farið í gegnum samtökin Villiketti sem nú hafa farið þess á leit við Hafnarfjörð að þeim verði úthlutað lóð í landi Hafnarfjarðar við Kaplaskeið, þar sem samtökin geti reist húsnæði þar sem villi- og vergangskisum verði sinnt og þeim hjúkrað.

Erindi Villikatta var tekið fyrir í bæjarráði í gær. Þar segir að samtökin hafi átt gott samstarf við bæinn og bæjarbúa síðastliðin átta ár og að margir af sjálfboðaliðum séu einmitt Hafnfirðingar. Þar sé öflugasti hluti starfsins.

„Bón okkar kann að virðast djörf við fyrstu sýn en er, ef betur er gáð, sanngjörn og skiljanleg í ljósi þess að samræmt útreikningum samtakanna hafa þau sennilega sparað bæjarfélaginu 70–80 milljónir króna á þeim átta árum sem þau hafa starfað í sveitarfélaginu,“ segir í bréfi samtakanna til bæjaryfirvalda.

Sjálfboðaliðar hafa komið köttunum til dýralækna en samtökin eru tilbúin með 300 fermetra stálgrindarhús þar sem allt er á einum og sama stað, lager og geymslur, sóttkví, herbergi fyrir lausa ketti og ketti í heimilisleit, aðstaða fyrir dýralækni til að skoða þá, aðstaða fyrir kettlinga og þvottahús.