Yfir tuttugu ein­staklingar greindust með co­vid-19 í gær. Þetta sagði Runólfur Páls­son, yfir­maður CO­VID-göngu­deildarinnar í morgunút­varpi Rás 2 rétt í þessu.

„Því miður greindust all­mörg smit til við­bótar í gær, yfir tuttugu, en við eigum eftir að fá stað­festar tölur um það og hvort þessi ein­staklingar voru í sótt­kví sem ég vonast til að stórum hluta,“ sagði Runólfur.

Spurður um hvað við eigum að lesa í þetta sagði Runólfur að um stóra hóp­sýkingu væri að ræða. en eins og hefur verið greint frá í fjöl­miðlum er hún tengd sóttkvíarbroti á landamærunum.

Með Runólfi í morgunút­varpinu var Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar. Kári tók það fram að okkur hefur hingað til gengið vel að ná utan um hóp­sýkingar og svona bylgjur sem hafa gengið yfir en það hefur kostað mikið átak og skerðingu á borgara­legum réttindum sem er farið að pirra fólk.

Alls greindust þrettán innan­lands­smit á laugardaginn og voru átta utan sóttkvíar. Af þeim 13 sem greindust í gær tengjast að minnsta kosti 10 ein­staklingar leik­skólanum Jörfa við Hæða­garð í Reykja­vík að sögn Al­manna­varna. Allir starfs­menn og nem­endur eru nú í sótt­kví. Alls er um að ræða um 130 ein­stak­linga en í leik­skólanum eru tæp­lega 100 börn og 33 starfs­menn.

Runólfur gat ekki sagt til um hversu stórt hlutfall af smitum gærdagsins væru tengd leikskólanum Jörfa en þó eru líkur á að einhver þeirra séu það.