Rúm­lega eitt þúsund fangar í San Quentin-fangelsinu í Kali­forníu eru nú smitaðir af CO­VID-19. Þetta er um þriðjungur allra fanga í fangelsinu sem tekur um 3.500 fanga.

Í frétt New­ser kemur fram að krufning muni skera úr um það hvort 71 árs fangi á dauða­deild fangelsisins, Richard Stitely, hafi látist af völdum CO­VID-19. Richard hafði setið á dauða­deild frá árinu 1992 þegar hann fékk dóm fyrir morð á 47 ára konu.

CO­VID-19 far­aldurinn hefur sótt heldur í sig veðrið í mörgum ríkjum Banda­ríkjanna að undan­förnu og er staðan í fangelsum landsins víða slæm. Rúm­lega tvö þúsund virk smit eru í fangelsum Kali­forníu og þar af um helmingu í San Quentin-fangelsinu.

David Sears, prófessor í læknis­fræði við Uni­versity of Cali­fornia, segir við frétta­stofu NPR að það sé ó­hugnan­legt hversu hröð út­breiðsla veirunnar hefur verið í fangelsum Kali­forníu að undan­förnu. Bent er á það að til­tölu­lega fá smit hafi greinst á tíma­bilinu frá mars og fram til loka maí­mánaðar og fangelsis­yfir­völd ráðið vel við út­breiðsluna. Í júní hefur hins vegar orðið sprenging í fjölda tilfella.

Talið er að far­aldurinn í San Quentin megi rekja til hóps fanga, alls 120 ein­stak­linga, sem voru fluttir úr öðru fangelsi í Kali­forníu til San Quentin í lok maí­mánaðar. Engar sýni voru tekin úr um­ræddum föngum og er talið að ein­hver, eða ein­hverjar, úr þeim hópi hafi stuðlað að út­breiðslu veirunnar.