CO­VID-19-far­aldurinn hafði gríðar­leg á­hrif í New York fyrr á þessu ári, en frá því í sumar hefur staðan verið betri og fjöldi smita verið innan við­ráðan­legra marka ef svo má segja. Blikur eru þó á lofti því í gær greindust yfir þúsund til­felli á einum sólar­hring í fyrsta skipti síðan 5. júní.

Í frétt Wall Street Journal kemur fram að 429 til­felli hafi greinst í New York City en 576 til­felli annars staðar í New York-ríki. Tæp­lega hundrað þúsund sýni voru tekin á föstu­dag og var hlut­fall já­kvæðra 1,0 prósent. Síðast þegar til­felli fóru yfir þúsund á einum degi var hlut­fall já­kvæðra sýna 1,4 prósent.

Andrew Cu­omo, ríkis­stjóri New York, hvetur fólk til að nota and­lits­grímur, huga að hand­þvotti og passa upp á fjar­lægðar­mörk.

Það sem veldur á­kveðnum á­hyggjum nú er að yfir­völd í New York á­kváðu á dögunum að draga úr ýmsum tak­mörkunum sem hafa verið í gildi. Frá og með mið­viku­deginum mega veitinga­staðir til dæmis taka á móti gestum, svo lengi sem fjöldi þeirra fer ekki yfir fjórðung þess sem rekstrar­leyfi kveður á um.

Tæp­lega 7,3 milljónir manna hafa nú greinst með CO­VID-19 í Banda­ríkjunum og þar af hafa rúm­lega 209 þúsund látist. Frá því í byrjun far­aldursins hafa tæp­lega 500 þúsund smit komið upp í New York en þar hafa rúm­lega 33 þúsund látist.