Þann 15. apríl fór Visit Faroe Is­lands af stað með heldur betur ó­hefð­bundna markaðs­her­ferð þar sem ein­stak­lingum var boðið upp á að stýra Fær­eyingi raf­rænt meðan hann gengur um Fær­eyjar.

Fær­eyskur leið­sögu­maður með GoPro mynda­vél á hausnum og heyrnar­tól í eyrunum fylgir öllum skipunum þess sem stýrir en sá hinn sami getur verið hvar sem er í heiminum. Verkefnið gengur undir nafninu Remote Tourism eða fjarstýrð ferðamennska. Þá er einnig hægt að stýra Færeyingi á hestabaki og í þyrlu.

Sex vikum eftir að her­ferðin fór í gang hafa yfir 700,000 manns frá 197 löndum heim­sótt undirsíður Visit Faroe Islands. Þá hafa yfir 1,000 manns tekið þátt í að stýra Fær­eyingi raf­rænt.

Þetta stað­festir Súsanna Søren­sen, markaðs- og fjöl­miðla­full­trúi, Visit Faroe Is­lands, í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Þessar tölur á við um heim­sóknir á síðuna og á Face­book síðuna okkar. Við vorum svo á­nægð með tölurnar að við þurftum að ganga úr skugga um að þær voru réttar,“ segir Súsanna.

Færeyingurinn fylgir skipunum þess sem stýrir.
Ljósmynd/Kirstin Vang

„Þetta alltaf bara einn leið­sögu­maður og einn hjálpari með þeirri mann­eskju þannig það eru tvær mann­eskjur úti í nátturinni. Svo er fjöldi fólks á skrif­stofunni að svara fyrir­spurnum á Face­book og tryggja að tengingin er í góðu,“ segir Súsanna.

Hún vonar til þess að þessi aukna at­hygli á náttúru landsins muni skila sér fleiri ferða­mönnum þegar opnað verður fyrir landamærin að fullu á ný.

„Við fórum í þetta verk­efni því fjöldi fólks þurfti að fresta ferðum sínum hingað vegna kórónu­veirunnar. Þannig við á­kváðum að gefa þeim tæki­færi til að sjá Fær­eyjar í gegnum augu sam­starfs­manns okkar í staðinn.“

Fjölmargir þeirra sem hafa tekið þátt í verkefninu eða fylgst með því gegnum netið er fólk sem átti bókaða ferð til Færeyjar, segir Súsanna. „Þannig það er já­kvætt að við höfum náð í hópinn sem við ætluðum okkar,“ segir hún.

Hún minnir að lokum Ís­lendinga á það að búið að opna fyrir ferðir Ís­lendinga til Fær­eyja og býður jafn­framt alla Ís­lendinga vel­komna til landsins.

Fimm dagar eru í að næsta fjar­stýring á Fær­eyingi fer fram en hægt er að fylgjast með fjarstýrðu ferðamennskunni hér og skoða heima­síðu Visit Faroe Is­lands hér .