Í kvöld bárust fregnir vestan­hafs um skot­á­rás í Hig­hland Park í Illin­ois, en að minnsta kosti sex eru látnir og 31 slasaðir. Um er að ræða fjölda­skot­á­rás númer 308 í Banda­ríkjunum það sem af er ári.

Árásamaðurinn gengur enn laus, en skotárásin átti sér stað í skrúðgöngu í úthverfi Chicago. Maðurinn hóf skothríð rétt eftir að skrúð­gangan hófst, en að sögn lögreglu skaut hann af þaki byggingar sem var með útsýni yfir hátíðarhöldin.

Þetta er skotárás númer 308 í Bandaríkjunum í ár, en það eru sam­tökin Gun Violance Archive greina frá þessu. Sam­tökin skil­greina fjölda­skot­á­rás þannig að það séu fjórir eða fleiri sem skotnir eru, fyrir utan skotmanninn sjálfan.

Sam­kvæmt sam­tökunum hafa ellefu fjölda­skot­á­rásir átt sér stað í Bandaríkjunum á fyrstu dögum júlí mánaðar, en þrjár af þeim áttu sér stað í dag.

Fjölda­skot­á­rásir eru nánast dag­legt brauð í Banda­ríkjunum, en stutt er síðan ní­tján grunn­skóla­börn voru myrt í borginni Uvald­e í Texas.

Þá sam­þykkti öldunga­deild Banda­ríkja­þings nýverið sam­eigin­legt laga­frum­varp beggja flokka um byssu­lög­gjöf í Banda­ríkjunum.

Um er að ræða fyrsta skrefið í átt að hertari byssu­lög­gjöf Banda­ríkjanna í ára­tugi en um er að ræða við­bragð við þeim gífur­lega fjölda skot­á­rása sem hafa átt sér stað í skólum þar vestan­hafs undan­farin ár.