Í kvöld bárust fregnir vestanhafs um skotárás í Highland Park í Illinois, en að minnsta kosti sex eru látnir og 31 slasaðir. Um er að ræða fjöldaskotárás númer 308 í Bandaríkjunum það sem af er ári.
Árásamaðurinn gengur enn laus, en skotárásin átti sér stað í skrúðgöngu í úthverfi Chicago. Maðurinn hóf skothríð rétt eftir að skrúðgangan hófst, en að sögn lögreglu skaut hann af þaki byggingar sem var með útsýni yfir hátíðarhöldin.
Þetta er skotárás númer 308 í Bandaríkjunum í ár, en það eru samtökin Gun Violance Archive greina frá þessu. Samtökin skilgreina fjöldaskotárás þannig að það séu fjórir eða fleiri sem skotnir eru, fyrir utan skotmanninn sjálfan.
Samkvæmt samtökunum hafa ellefu fjöldaskotárásir átt sér stað í Bandaríkjunum á fyrstu dögum júlí mánaðar, en þrjár af þeim áttu sér stað í dag.
Fjöldaskotárásir eru nánast daglegt brauð í Bandaríkjunum, en stutt er síðan nítján grunnskólabörn voru myrt í borginni Uvalde í Texas.
Þá samþykkti öldungadeild Bandaríkjaþings nýverið sameiginlegt lagafrumvarp beggja flokka um byssulöggjöf í Bandaríkjunum.
Um er að ræða fyrsta skrefið í átt að hertari byssulöggjöf Bandaríkjanna í áratugi en um er að ræða viðbragð við þeim gífurlega fjölda skotárása sem hafa átt sér stað í skólum þar vestanhafs undanfarin ár.