Mann­skæðasti sólar­hringur í Brasilíu vegna CO­VID-19 var í gær þegar nærri 1300 manns létust af völdum sjúk­dómsins. Þetta er hæsta dánar­tala sem mælst hefur á einum degi frá upp­hafi far­aldursins en nú hafa 31.309 ein­staklingar látið lífið af völdum sjúk­dómsins í landinu.

Að undan­skildum Banda­ríkjunum eru hvergi fleiri stað­fest til­vik CO­VID-19 veirunnar í heiminum. Opin­berar tölur gefa til kynna að yfir 550 þúsund manns hafa greinst með veiruna í landinu, þar af nærri þrjá­tíu þúsund í gær.

Sér­­­fræðingar vara þó við að tölurnar gefi skakka mynd þar sem fá sýni séu tekin og að­­gerðir stjórn­valda séu af skornum skammti. Raun­veru­­lega tölur gætur verið allt að fimm­tán sinnum hærri en í opin­beri talningu.

Slaka á aðgerðum

Þrátt fyrir það til­kynntu stjórn­völd í gær að til­slakanir hafta vegna CO­VID-19 myndu hefjast í vikunni. Einn af fyrstu á­föngum þess verður í héraði Rio de Janeiro þar sem verslanir og fyrir­tæki fá að opna að nýju. Yfir fimm þúsund manns hafa látist í héraðinu og yfir 54 þúsund manns greinst með veiruna.

Marcelo Cri­vella, borgar­stjóri Rio de Janeiro sagðist búast við því að allt yrði orðið eðli­legt að nýju í borginni snemma í ágúst. „Ef til­mælum er fylgt, and­lits­grímur notaðar og fólk forðast mann­mergð, þá mun lífið verða eðli­legt á ný.“

For­seti Brasilíu, Jair Bol­sonaro, við­heldur þeirri skoðun að of mikið sé gert úr veirunni og hefur í­trekað hvatt íbúa landsins til að hundsa tak­­markanir sem héraðs­­stjórar hafa komið á fótinn.