Um þrjátíu einstaklingar hafa leitað á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi vegna hálku í dag. Að sögn Jóns Magnúsar Kristjánssonar, yfirlæknis bráðamóttökunnar eru það mjög mörg tilvik.

Fólk hefur leitað á bráðamóttöku vegna beinbrota og þess háttar en ekki hafa orðið lífshættuleg slys enn sem komið er.

Jón segir að almennt hafi álag á bráðamóttökunni minnkað frá því sem var í síðustu viku. „Auðvitað hefur það mikil áhrif þegar svo mörg slys eru sama daginn en ástandið er þó betra en ef þessi dagur hefði komið upp í síðustu viku þegar gríðarlegt álag var á bráðamóttökunni."

Hann ráðleggur fólki fyrst og fremst að fara varlega, salta og sanda stiga og stíga og nota mannbrodda eða göngubrodda.

Flughált er víða um land í dag.
Fréttblaðið/ Gunnar V. Andrésson

Vetrarfærð er í flestum landshlutum og flughálka er á höfuðborgarsvæðinu. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við mikilli hálku í umdæminu.

Björn Ingvarsson, deildarstjóri þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar, segir að Vetrarþjónusta borgarinnar hafi handast við að salta vegi og stíga klukkan fjögur í nótt. Stígar voru saltaðir aftur klukkan átta í morgun.

„Það var frostrigning í nótt og svo frís það aftur í morgunsárið. Þetta veldur mikilli og glærri hálku sem erfitt sé að sjá," segir Björn.

Hann segir að þó nokkrar tilkynningar hafa borist Vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar í dag vegna hálku. Hann vekur athygli á því að hægt er að senda inn á ábendingu á vef Reykjavíkurborgar.

„Það er enn verið að vinna í þessu og við höfum eftirlit bæði með stígum og götum það sem eftir lifir dags," segir Björn að lokum.