Yfir þrjár milljónir Bandaríkjamanna hafa greinst með kórónuveiruna frá því að faraldurinn hófst. Um er að ræða lang­flestu smitin í heiminum og næstum tvö­falt fleiri smit en í Brasilíu sem er með næstmestu smitin í heiminum, rúmlega 1,6 milljón staðfest smit.

Þetta kemur fram smitrakningu John Hop­kins há­skólans í Banda­ríkjunum en The Guar­dian greinir frá.

Næstum því fjórðungur allra smita í heiminum hafa greinst í Banda­ríkjunum. Þá hafa yfir 130 þúsund manns látist af völdum veirunnar þar í landi.

Á mánu­daginn, sagði Ant­hony Fauci, sótt­varna­læknir Banda­ríkjanna, að stjórn landsins á far­aldrinum væri alls ekki góð.

Að­gerðar­stjórn Banda­ríkjanna hóf ný­lega blaða­manna­fund í mennta­mála­ráðu­neyti landsins en mikil um­ræða hefur verið í Bandaríkjunum um hvort skólar eigi að opna að nýju eftir sumarið.

Donald Trump, for­seti Banda­ríkjanna, tísti í dag að hann væri ó­sam­mála skil­yrðunum sem mið­stöð sjúk­dóma­eftir­lits og sjúk­dóma­varna (CDC) setti fyrir skólahaldi. Hann ákvað einnig á mánudeginn að landvistarleyfi erlendra háskólanema yrði afturkallað í þeim háskólum þar sem kennsla verður með öllu rafræn.