Yfir 60 prósent landsmanna eru andvíg núverandi kvótakerfi í sjávarútvegi, ef marka má niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar Prósents. Af þeim sem tóku afstöðu segjast aðeins 20 prósent vera mjög eða frekar hlynnt kerfinu en 61 prósent frekar eða mjög andvíg því.

Svörun þeirra sem tóku afstöðu í könnun Prósents. Neðar í fréttinni er graf sem sýnir svörun allra, líka þeirra sem ekki tóku afstöðu til spurningarinnar.
Fréttablaðið/Katrín

„Ég hef séð svona spurningar og niðurstöður áður, þannig að þetta kemur mér ekki á óvart,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Hún segir erfitt að draga skýrar ályktanir af þessu enda kunni fólk að hafa margar og misjafnar skoðanir á því hvernig megi breyta því kerfi sem er við lýði.

Hin elstu hlynntari kerfinu en aðrir aldurshópar

Samkvæmt könnuninni eru konur töluvert andvígari kerfinu en karlar og íbúar höfuðborgarsvæðisins eru einnig andvígari því en íbúar á landsbyggðinni.

Mestur stuðningur við kerfið er í elstu kynslóðinni, hjá þeim sem eru 65 ára eða eldri og hjá þeim sem hæstu tekjurnar hafa. Fjórðungur þeirra sem elstir eru og þeirra sem hæstar tekjurnar hafa eru hlynnt kerfinu.

Mest andstaða við kerfið er hins vegar í aldurshópnum 35 til 44 ára en þar er andstaðan 71 prósent og aðeins þrettán prósent styðja kerfið.

Könnunin var gerð á netinu dagana 14. til 26. janúar. Úrtakið var 2.300 einstaklingar og svarhlutfall var 50 prósent.

Kerfið varð ekki til í einu vetvangi

Heiðrún segir mikilvægt að hafa alla söguna í forgrunni. „Markmið fiskveiðistjórnunarkerfisins var að koma á sjálfbærum veiðum. Of mörg skip voru að eltast við of fáa fiska. Þorskstofninn hrundi, afkoman var afleit og hið opinbera þurfti ítrekað að veita fyrirtækjum fjárhagslegt liðsinni. Verkefnið var því að tryggja umhverfislega, efnahagslega og samfélagslega sjálfbærni,“ segir hún.

Hún bendir svo á að kerfið hafi ekki orðið til í einu vetfangi árið 1983. Leiðin að markmiðinu hafi verið bæði löng og erfið.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdarstjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

„En okkur Íslendingum tókst þetta – og okkur tókst það sem flestum þjóðum hefur mistekist. Mér er því til efs, að sá hópur sem segist andvígur kvótakerfinu, hafi, þegar betur er að gáð, vilja til þess að hverfa af braut og taka upp eitthvert annað kerfi, jafnvel með óljósu markmiði og ófyrirséðum afleiðingum,“ segir hún.

Þá segist Heiðrún ekki finna fyrir andstöðu við sjálfbærar veiðar, heldur þvert á móti. Enda sé sjálfbærni forsenda þess að villtur fiskur eigi greiða leið á markað.

Óréttlætið ástæða andstöðunnar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar var sjávarútvegsráðherra um skamma hríð árið 2017.
Fréttablaðið/Eyþór

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, segir óréttlæti helstu skýringuna á andstöðu við kvótakerfiið. „Fólki misbýður sérhagsmunagæslan,“ segir hún.

Verðbúðin hafi dregið fram þessa bjöguðu mynd en andstaða landsmanna skýrist af endalausum feluleik í stað gegnsæis, dreifðrar eignaraðildar, markaðsgjalds og almennilegs auðlindaákvæðis í stjórnarskrá.

„Ef ekkert verður að gert mun þetta springa framan í ríkisstjórnarflokkanna,“ segir hún og bætir við: „Það er einfaldlega ekki rétt gefið og ríkisstjórnin vill hafa þetta svona. Þegar upp er staðið er varðstaðan um sjávarútveginn meginástæða þess að ríkisstjórnin ákvað að halda áfram samstarfinu. Til þess voru refirnir skornir.“