Íslendingar vörðu 1.089 milljónum króna í tónleika, leikhús, kvikmyndasýningar og aðra viðburði í október síðastliðnum samkvæmt tölum um kortaveltu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Í sama mánuði á síðasta ári, þegar samkomutakmarkanir voru í hámarki, nam kortavelta í sama flokki 61 milljón.

Innlend kortavelta bendir til þess að miðasala á jólatónleika hafi náð sér aftur á strik eftir kórónaveirufaraldurinn en veltan nálgast nú tölur frá því í september 2018 þegar hún nam tæpum 1.300 milljónum.

„Þessar tölur sýna hvað er mikil þörf fyrir svona viðburði hjá fólki. Það er í spreng að koma,“ segir Ísleifur Þórhallsson, formaður Bandalags íslenskra tónleikahaldara. Miðasala og smittölur haldist í hendur.

„Við sjáum að þegar smitum fjölgar þá dregur úr miðasölunni og þegar þeim fækkar þá eykst hún. Þetta gerist áður en tilkynnt er um hertar takmarkanir, fólk virðist vita í hvað stefni með fjölgun smita,“ segir Ísleifur.