Alls gistu 115 manns í fjöldahjálparstöð Rauða krossins í íþróttahúsinu við Sunnubraut í Reykjanesbæ í nótt vegna veðurs.

Jón Brynjar Birgisson, sviðsstjóri innanlandssviðs hjá Rauða krossinum, segir 114 strandaglópa enn vera í húsinu enda sé allt stopp enn sem komið er.

Greint hefur verið frá því að Reykjanesbrautin verði líklega lokuð til hádegis en henni var fyrst lokað í gærmorgun vegna veðurs.

Ekki óskastaða fyrir neinn

Jón Brynjar segir heilt yfir ágætis stemningu í fjöldahjálparstöðinni þetta sé þó ekki óskastaða fyrir neinn. „Þetta er auðvitað ekki óska staða fyrir nokkurn einasta mann. Fólk fær þarna einfalda aðstöðu til að dvelja og gista á, neyðarbeddar bara.“

Að sögn Jóns Brynjars er hópurinn mjög blandaður, ferðamenn og Íslendingar. Þegar mest var hafi 178 manns verið skráðir í húsinu í gær.

Aðspurður um framhaldið segir Jón Brynjar erfitt að segja til um það. „Það er útilokað að vita hvernig þetta þróast allt.“

Bíða öll eftir sömu upplýsingum

Kristjana Fenger, aðstoðarmaður framkvæmdastjóra hjá Rauða krossinum, er stödd í fjöldahjálparstöðinni í Reykjanesbæ. Hún segir fólk í ágætis standi miðað við aðstæður.

„Núna er mjög rólegt. Fólk er að koma sér á fætur og fá sér morgunmat. Fólk hefur getað hallað sér aðeins en þetta eru kannski ekki príma aðstæður, þessir beddar, sem við erum með. En fólk er alveg ótrúlega þolinmótt og bíður átekta eftir upplýsingum. Annað hvort að Reykjanesbrautin opni eða upplýsingum frá flugfélögum,“ segir Kristjana og bætir við að fólk átti sig á því að það þýði ekkert annað en að taka þetta á æðruleysinu.

„Við bíðum öll eftir sömu upplýsingunum, hvenær verði farið að fljúga aftur og hvenær Reykjanesbrautin opnar aftur. Ég kom nú hingað fyrir um það bil klukkustund síðan og það skefur enn í skafla á Reykjanesbrautinni,“ segir Kristjana.

Í gær var einnig opnuð fjöldahjálparstöð á Hellu en Jón Brynjar segir aðeins níu manns hafa sótt þangað í gær og að um hálf sexleytið hafi henni verið lokað á ný.