Um hundrað innan­lands­smit greindust í gær á Ís­landi. Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn, greindi frá því í morgunút­varpinu á Rás 2 í morgun.

Hann sagði stöðuna enn þunga á Land­spítalanum en að það væri mikil­vægt að halda á­fram að reyna að finna leiðir til að takast á við kórónu­veiruna.

Spurður um smitrakninguna sagði Víðir að á tíma­bili þegar fjöldinn var mikill að greinast þá hafi verið erfitt að ná til allra og að gæði þjónustunnar hafi skerst en að þau hafi getað nýtt helgina þegar færri smit voru til að vinna upp.

Hann segir að þótt svo að það séu sendir tölvu­póstar þegar vitað er af stórum vinnu­stöðum eða hópum sem þurfa að fara í sótt­kví þá nái þau ekki alltaf til allra og það sé nú verið að leita leiða til að gera fólki kleift að skrá sig í sótt­kví sjálft.

Fjöldi tilfella ný staða

„Þetta er ný staða fyrir okkur að vera með svona mörg til­felli,“ sagði Víðir og benti á að í þriðju bylgjunni hafi smitin um einu sinni verið fleiri en 100.

Hann sagði að það væri mikil­vægt fyrir fólk, til að fá laun, að það sé skráð inn í kerfið svo að það geti fengið vott­orð.

Grunn- og fram­halds­skólar hefjast í vikunni og spurður um hvað fólk eigi að gera sagði Víðir að það verði stærstu hluti þessi að lifa með veirunni að vita hvernig reglurnar eru hverjir eigi að fara í sótt­kví þegar smit greinast, það geti verið mjög margir þegar sam­neyti er mikið og hópar stórir á vinnu­stað.

„Skólarnir geta lent í því núna með enga hólfa­skiptingu og stóra hópa að ansi margir fara í sótt­kví,“ sagði Víðir og benti á leik­skóla og frí­stunda­heimili þar sem að stórir hópar hafa þurft að fara í sótt­kví vegna fárra smita.