Eitt hundrað og fjórir hafa látið lífið í mótmælum í Írak undanfarna daga samkvæmt talsmanni innanríkisráðuneytis landsins, Saad Maan. Mótmælin beinast gegn stjórnvöldum í Bagdad, höfuðborg landsins, og fleiri borgum í suðurhluta Íraks.

Maan lét hafa eftir sér í gær að 6.107 manns hefðu særst í mótmælunum og þar af eru um 1.200 lögreglumenn.

Mótmælin hófust á þriðjudag og stóðu enn í gær en ekki er vitað hvort fleiri létu lífið í átökunum í gær.

Undanfarna daga hefur mikill fjöldi lögreglumanna unnið að því að koma mótmælendum frá Tahrir-torgi en þar hófust mótmælin á þriðjudag. Síðan á þriðjudag hafa mótmælin færst í aukana, breiðst út til nærliggjandi borga og orðið blóðugri með hverjum deginum.

Tveimur árum eftir ósigur Íslamska ríkisins í landinu er öryggisgæsla betri en verið hefur um árabil, en á sama tíma ríkir hömlulaus spilling í landinu, innviðir hafa ekki verið endurbyggðir og mikið er um atvinnuleysi.

Upphaf mótmælanna má rekja til þess að sjálfsprottnar fylkingar ungra Íraka kröfðust atvinnu og upprætingar spillingar í landinu.

Adel Abdul Mahdi, forsætisráðherra Íraks, boðaði til neyðarfundar á laugardagskvöld þar sem hann setti fram nýja sautján þrepa áætlun. Áætlunin felur meðal annars í sér auknar niðurgreiðslur húsnæðiskostnaðar fyrir fátæka, auknar atvinnuleysistryggingar og námskeið til uppbyggingar fyrir atvinnulaus ungmenni.

Fjölskyldum þeirra sem látist hafa í átökunum hefur einnig verið lofað aðstoð í formi umönnunar og peningaupphæða.

„Ég sver það við Guð að það sem mestu máli skiptir í þessu öllu er að lágmarka mannfall,“ sagði forsætisráðherrann á fundinum.

Mótmælendur voru enn þá á götum úti í gær en þó hafði dregið úr átökum síðan á laugardag. Að sögn ráðamanna landsins mátti þó gera ráð fyrir frekari átökum þegar líða tæki á kvöldið og nóttina. Hundruð lögreglumanna eru í viðbragðsstöðu komi til frekari átaka.